Lávarðadeildin vill breytingar

Frá fundi lávarðadeildar breska þingsins í dag.
Frá fundi lávarðadeildar breska þingsins í dag. AFP

Lávarðadeild breska þingsins samþykkti í dag breytingatillögu við lagafrumvarp sem heimila á ríkisstjórn Bretlands að hefja formlega útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Breytingatillagan kveður á um að stjórnvöld ábyrgist að ríkisborgarar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) sem búsettir eru í Bretlandi haldi réttindum sínum.

Frumvarpið hafði áður verið samþykkt með miklum meirihluta í neðri deild þingsins og var öllum breytingatillögum hafnað í afgreiðslu hennar. Þar á meðal hliðstæðri tillögu og lávarðadeildin hefur nú samþykkt. Hugsanlegt er að deildin samþykki einnig breytingatillögu þess efnis að þingið þurfi að samþykkja endanlegan útgöngusamning.

Lávarðadeildin samþykkti breytingatillöguna með 358 atkvæðum gegn 256 en samþykkt tillögunnar þýðir að frumvarpið mun aftur koma til kasta neðri deildarinnar síðar í þessum mánuði eftir afgreiðslu lávarðadeildarinnar og tefja þannig ferlið en ríkisstjórnin hefur stefnt að því að hefja útgönguferlið úr Evrópusambandinu í lok þessa mánaðar.

Ríkisstjórnin hefur sagt að hún hafi fullan hug á að tryggja réttindi ríkisborgara Evrópusambandsríkja sem búsettir eru í Bretlandi en ekki sé rétt að kveða á um slíkt í lögum áður en samið hafi verið um það við Evrópusambandið að það sama eigi við um breska ríkisborgara sem búsettir eru í ríkjum sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert