Þverrandi auðlindir ógna framtíð mannkyns

Jarðarbúar borða sífellt meira af kjöti. Til að framleiða kjöt …
Jarðarbúar borða sífellt meira af kjöti. Til að framleiða kjöt þarf að nota mikið af korni. AFP

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur að framtíð mannkyns sé ógnað vegna þess að náttúruauðlindir fari þverrandi og breytingar á loftslagi skapi þær aðstæður að matvælaskortur gæti orðið að veruleika.

Þessi viðvörun er sett fram í nýrri skýrslu FAO sem fjallað er um í Heimsljósi, vefriti um þróunarmál.

Í skýrslunni er lögð er áhersla á mikilvægi þess að grípa í taumana meðan jarðarbúar hafa enn möguleika á því að framleiða mat fyrir alla. Að mati skýrsluhöfunda þarf að gera gagngerar breytingar til að tryggja sjálfbæra framleiðslu á mat í þágu alls mannkyns.

Í skýrslunni segir að raunverulegar og marktækar framfarir hafi orðið á síðustu þrjátíu árum í baráttunni gegn hungri en þær framfarir hafa oft og tíðum verið á kostnað náttúrunnar. „Um það bil helmingur skóga sem eitt sinn klæddu lönd heimsins er horfinn. Ört er gengið á grunnvatnsbirgðir. Líffræðilegur fjölbreytileiki minnkar,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni segir enn fremur að þeim komi til með að fjölga sem borða minna kornmeti en meira af kjöti, ávöxtum, grænmeti og unnum matvælum. Þetta sé hluti af breyttu mataræði í heiminum sem auki álag á náttúruauðlindir, leiði til aukinnar skóg- og landeyðingar og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Að mati FAO er brýnt að fjárfesta í matvælaframleiðslu heimsins og endurskipuleggja hana því að óbreyttu fjölgi þeim sem svelta fram til ársins 2030, en það ár á samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að vera búið að uppræta hungur í heiminum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert