Ráðist á mann við heimili hans

AFP

Ráðist var á karlmann við heimili hans í borginni Kent í Washington-ríki í Bandaríkjunum á föstudaginn og hann skotinn í handlegginn. Talið er að um hatursglæp hafi verið að ræða en maðurinn mun vera ættaður frá Indlandi.

Fram kemur í frétt AFP að maðurinn, sem er tæplega fertugur, hafi verið að gera við bifreið sína í innkeyrslunni við heimili sitt þegar árásarmaðurinn hafi gengið upp að honum. Árásarmaðurinn var grímuklæddur og vopnaður byssu. 

Árásarmaðurinn sagði meðal annars við fórnarlambið að það ætti að fara til heimalands síns og skaut það síðan í handlegginn. Leit stendur yfir að árásarmanninum. Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús og hefur verið útskrifað.

Stutt er síðan ráðist var á 32 ára gamlan verkfræðing frá Indlandi í Kansas og hann myrtur. Annar Indverji var særður í skotárás í Kansas. Árásarmaðurinn hrópaði rasísk ókvæðisorð að manninum áður en hann skaut á hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert