Mannfall í Búrma og spennan eykst

Að minnsta kosti 30 létu lífið í við landamæri Búrma …
Að minnsta kosti 30 létu lífið í við landamæri Búrma og Kína. Mynd úr safni frá Búrma. AFP

Að minnsta kosti 30 létust í átökum í borginni Laukkai við landamæri Kína og Búrma milli uppreisnarmanna í MNDAA-samtökunum og stjórnarhersins í dag, að sögn stjórnvalda í Búrma.

Fimm óbreyttir borgarar, fimm lögreglumenn og að minnsta kosti 20 uppreisnarmenn létu lífið. Á meðal látinna var einn barnaskólakennari. Uppreisnarmennirnir klæddust einkennisbúningi lögreglunnar í Búrma þegar þeir létu til skara skriða. Heyra mátti skothvelli langt fram eftir degi í dag.  

Þetta er mesta mannfall sem hefur orðið í átökum á Kokang-svæðinu frá árinu 2015. Það ár flúðu þúsundir manna yfir landamærin til Kína vegna átakanna. Sterk tengsl eru við Kína í þessu héraði þar sem flestir íbúar eru kínverskumælandi einnig er gjaldmiðillinn kínverskt yuan notaður. Samkvæmt heimildum AFP halda stjórnvöld í Kína hlífiskildi yfir uppreisnarmönnum í Búrma. 

Í Búrma búa fjölmörg þjóðarbrot og spenna hefur aukist til muna undanfarið við nágrannaríkið Kína. Ríkisstjórn undir forystu, Aung San Suu Ky, er orðin langeyg eftir að binda enda á átökin sem hafa staðið í yfir áratugi. Vaxandi átök ógna friðarumleitunum. Árið 2015 fór lýðræðis­hreyf­ing undir forystu Suu Ky með sig­ur í þing­kosn­ing­um eft­ir 50 ára her­stjórn í land­inu.

„Íbúar eru að flýja átökin í borginni,“ segir hermaður frá Búrma við AFP en átökin stóðu enn yfir þegar líða fór á kvöldið.  

Regnhlífasamtök uppreinsnarmanna, sem hafa samþykkt að taka þátt í friðarsamkomulagi í landinu, hafa staðfest að liðsmenn MNDAA-samtakanna berjast í borginni Laukkai. Síðasta árið hafa átökin aukist og talið er að að minnsta kosti 160 mannslíf hafi týnst í átökum í og við landamærin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert