Lekinn líklega frá verktökum CIA

Móttakan í höfuðstöðvum CIA í Langley í Virginíu. Talið er …
Móttakan í höfuðstöðvum CIA í Langley í Virginíu. Talið er að starfsmenn verktakafyrirtækja sem CIA nýtir hafi lekið skjölunum sem Wikileaks birti. AFP

Starfsmenn verktakfyrirtækja sem bandaríska leyniþjónustan CIA notar eru líklegastir til að hafa lekið upplýsingum og gögnum frá stofnuninni til uppljóstrarasíðunnar Wikileaks. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir heimildamönnum innan bandarískrar leyniþjónustu og löggæslustofnana.

Heimildamenn Reuters, sem ekki vildu láta nafns síns getið, sögðu leyniþjónustuna hafa vitað af lekanum frá því í lok síðasta árs. Samkvæmt gögnunum sem birt voru á vef Wikileaks gátu starfsmenn CIA komist inn í iPhone-síma og síma og önnur tæki sem keyrðu á Android-forriti Google, áður en dulkóðun var bætt við hugbúnaðinn.

Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, greindi frá því í dag að Donald Trump Bandaríkjaforseti væri „mjög áhyggjufullur“ yfir lekanum. „Hver sá sem lekur leynilegum upplýsingum verður látinn sæta ábyrgð samkvæmt ströngustu lagaskilmálum,“ sagði Spicer.

Heimildamenn Reuters kváðust telja að gögnin sem Wikileaks birti væru raunverulega frá CIA. Sagði annar heimildamannanna að verktakar hjá CIA séu nú að kanna hverjir starfsmanna þeirra hafi haft aðgang að efninu sem Wikileaks birti. Þannig sé nú verið að fara yfir tölvur og pósta starfsmanna í leit að sönnunum um það hvar ábyrgðin liggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert