Deyja vegna óheilbrigðs mataræðis

Sérfræðingarnir segja að koma megi í veg fyrir fjölda dauðsfalla …
Sérfræðingarnir segja að koma megi í veg fyrir fjölda dauðsfalla með bættu mataræði.

Um 400.000 Bandaríkjamenn deyja á ári hverju af orsökum sem rekja má til óheilbrigðs mataræðis. Vandamálið er tvíþætt; annars vegar að Bandaríkjamenn borða of mikið af söltum, feitum og sykruðum mat og hins vegar að þeir borða ekki nóg af ávöxtum, grænmeti og trefjum.

Þetta eru niðurstöður sérfræðinga sem kynntar voru á fundi American Heart Association í dag.

Að sögn Ashkan Afshin, prófessors í alþjóðaheilbrigði við heilbrigðisstofnun University of Washington, má rekja fjölda dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma til óheilbrigðs mataræðis.

Hann sagði að baráttan gegn transfitum hefði gengið vel en þær væri þó enn að finna í sumu viðbiti, smákökum og öðrum unnum matvörum. Hann sagði að koma mætti í veg fyrir mörg dauðsföll með bættu mataræði.

„Niðurstöður okkar sýna að hægt væri að koma í veg fyrir um helming dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma í Bandaríkjunum með betra mataræði,“ segir Afshin.

Fleiri en 600.000 deyja árlega í Bandaríkjunum af völdum hjartasjúkdóma. Meðal áhættuþátta eru reykingar, offita, mataræði, hreyfing og erfðir.

Teymi Afshin rannsakaði gögn um dauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma árið 2015 og komst að þeirri niðurstöðu að mataræði kom við sögu hjá 222.100 körlum og 193.400 konum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert