Með brotið stýri í 6 metra ölduhæð

Strandgæslan kom loks á vettvang og tókst að bjarga parinu …
Strandgæslan kom loks á vettvang og tókst að bjarga parinu frá borði. Skjáskot/Sky

Írskum karlmanni og franskri konu var bjargað úr sjávarháska eftir að stýri snekkju þeirra brotnaði og þau tók að reka í úfnu Tasman-hafinu.

Parið var á siglingu frá Nýja-Sjálandi til Ástralíu er þau lentu í slæmu veðri sem varð til þess að stýrið brotnaði á laugardag.

Allt að sex metra háar öldur hvolfdust yfir snekkjuna nokkrum sinnum áður en þeim tókst að virkja neyðarsendi um borð. 

Annar skipverjinn, Nick Dwyer, segir sig og konu sína, Barböru Heftman, hafa óttast um líf sitt. „Í hvert skipti sem aldan skall á okkur veltum við fyrir okkur hvort að hún myndi taka okkur í þetta skiptið. Við vorum ekkert viss um að hafa það af og við stóðum andspænis dauðanum,“ segir hann í samtali við Sky-fréttastofuna. 

Ástralska strandgæslan heyrði neyðarmerkið og kom fólkinu til bjargar. Snekkjuna urðu þau að yfirgefa en þar hafa þau búið í sjö ár á meðan þau  hafa siglt um heimsins höf. Þau eru því reynslumikil og vissu hvernig ætti að bregðast rétt við.

Björgunarmennirnir settu sig einnig í hættu við að bjarga parinu frá borði. Öldurnar voru margra metra háar og vindhraðinn um 40 hnútar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert