Skotnir til bana í Stokkhólmi

AFP

Tveir menn á þrítugsaldri voru skotnir til bana í úthverfi Stokkhólms, Kista, um tíu leytið í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Aftonbladet voru þeir báðir skotnir í höfuðið þar sem þeir sátu í bifreið á bílastæði í íbúðahverfi stutt frá grunnskóla.

Carina Skgerlind, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, segir að annar hafi látist strax en hinn síðar um kvöldið. Lögregla lýsir eftir silfurgráum bíl sem sást keyra af vettvangi skömmu eftir árásina. 

Tæknideild lögreglunnar lauk störfum á vettvangi klukkan 4 í nótt en enginn hefur verið handtekinn í tengslum við morðin.

Samkvæmt heimildum Aftonbladet var það íbúi í nágrenninu sem kom að bifreið mannanna en hann var að bera vörur inn heima hjá sér. Hann lét lögreglu strax vita og voru mennirnir fluttir með hraði á sjúkrahús. Að minnsta kosti fjórir skothvellir heyrðust. Heimildir herma að árásarmennirnir hafi verið tveir og þeir hafi flúið á silfurgráum bíl af vettvangi.

Talið er að þeir hafi ekið á aðra bifreið á flóttanum en ökumaður þeirrar bifreiðar tilkynnti um atvikið til lögreglu. Skammt frá þeim stað sem mennirnir voru skotnir var ungur maður skotinn til bana síðasta sumar.

Tveir karlar og ein kona voru myrt í úthverfum Stokkhólms daginn áður líkt og greint var frá á mbl.is í gær.

Frétt Aftonbladet

Frétt SVT

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert