Tifandi tímasprengja sem sprakk

AFP

Yfirvöld í Gvatemala hafa lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna 22 unglingsstúlkna sem létust í eldsvoða í athvarfi fyrir börn og ungmenni sem annað hvort eru fórnarlömb heimilisofbeldis eða búa á götunni. Stúlkurnar sem létust eru á aldrinum 14-17 ára.

Alls eru 38 slasaðir eftir eldsvoðann í San Jose Pinula, sem er í 10 km fjarlægð frá Gvatemala-borg. Af þeim eru 16 í lífshættu. Að sögn lögreglu kveiktu einhverjir íbúar heimilisins í dýnum í í uppþoti sem kom upp vegna kynferðislegs ofbeldis sem íbúar hafa orðið fyrir af hálfu starfsfólks heimilisins. Eins reyndu nokkrar þeirra að flýja en talið er að tvöfalt fleiri börn búi í skýlinu en heimilt er. 

AFP

Forseti Gvatemala, Jimmy Morales, sagði í sjónvarpsávarpi í gær að hann hafi fyrirskipað að yfirmaður heimilisins yrði rekinn. Rými er fyrir 400 börn og ungmenni á heimilinu en um tvöfalt fleiri börn eru vistuð þar.

 Morales segir að áður en eldurinn kviknaði hafi verið gefin út fyrirskipun um að flytja hluta hluta ungmennanna í annað gistiskýli vegna þrengsla. Verið var að deila út mat þegar einhver þeirra kveiktu í dýnum, segir  Abner Paredes, saksóknari í barnarétti.

Fólk sem berst fyrir mannréttindum stóð fyrir minningarstund um stúlkurnar í gærkvöldi en ítrekað hafði verið varað við því að eitthvað þessu líkt gæti gerst. 

„Þetta var tifandi tímasprengja. Þetta á ekki að koma á óvart,“ segir fyrrverandi starfsmaður athvarfsins, Angel Cardenas.

AFP

Ættingjar og vinir barna sem búa í skýlinu biðu í gær á milli vonar og ótta um afdrif íbúanna. Hvorki þeir né fjölmiðlar fengu að koma inn í athvarfið til þess að kanna með líðan ástvina.

Einangrun sem nefnist hænsnabúrið

„Við fáum engar upplýsingar, engar,“ segir Rosa Aguirre, 22 ára götusali, en þrjú systkina hennar, tvær stúlkur 13 og 15 ára og 17 ára piltur, bjuggu í athvarfinu. Hún segir að margir hafi farið á sjúkrahúsin í nágrenninu til að kanna hvort ættingjar þeirra væru þar.

Aguirre segir að hún hafi lagt fram kvörtun um aðbúnað í athvarfinu og hvernig væri komið fram við íbúana en það hafi ekki skilað neinu. Hún segir að ítrekað hafi komið til átaka þar vegna aðbúnaðar og bróðir hennar hafi stundum verið settur í einangrun í herbergi sem aldrei er kveikt ljós í. Herbergi sem er kallað „hænsnabúrið“. 

Hún hefur reynt að fá forræðið yfir systkinum sínum eftir að móðir þeirra lést fyrir fjórum mánuðum án árangurs.

AFP

Fjölmiðlar í Gvatemala greina frá því að starfsfólk athvarfsins hafi beitt börnin, sem öll eru undir 18 ára aldri, kynferðislegu ofbeldi og þau hafi fengið lítið sem ekkert að borða. Tugir barna hafa flúið þaðan undanfarna mánuði og að sögn vegna skelfilegs aðbúnaðar.

Athvarfið, sem er rekið af ríkinu, er ætlað fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis eða börn sem búa á götum úti. Þau eru send þangað á grundvelli dómsúrskurðar og eru á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins. 

Hilda Morales, sem fer með réttindi barna hjá ríkissaksóknara, ætlar að fara fram á að athvarfinu verði lokað vegna þess að greinilegt sé að velferðaryfirvöld eru ófær um að reka það. Eins verði þeir sem beri ábyrgð á daglegum rekstri þess sóttir til saka fyrir brot í starfi. Í fyrra hafi mannréttindaráð (Inter-American Commission on Human Rights) komist að þeirri niðurstöðu að börn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi þar og búið við illa meðferð.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert