Ferðum aflýst vegna snjóbyls

Snævi þakin gangstétt í Chicago-borg í dag.
Snævi þakin gangstétt í Chicago-borg í dag. AFP

Flugfélagið Icelandair hefur aflýst sex flugferðum til og frá Bandaríkjunum í fyrramálið, þar sem borgir og byggðarlög í Norðaustur-Bandaríkjunum búa sig nú undir mikinn snjóbyl. Veðurfræðingar vara við mikilli snjókomu á morgun allt frá höfuðborginni Washington og norður til Massachusetts. 

Um er að ræða flug FI630 og FI631 til og frá Boston, flug FI615 og FI614 til og frá JFK-flugvelli og flug FI623 og FI622 til og frá Newark-flugvelli. Stormviðvörun hefur verið lýst yfir í New York-borg.

„Hlutirnir verða áhugaverðir á austurströndinni í nótt,“ sagði Veðurstofa Bandaríkjanna í tilkynningu á mánudagsmorgun.

Erfitt er að spá fyrir um hversu mikið og hvar muni helst snjóa. Þó gæti bylurinn skilið eftir sig allt að hálfan metra af snjó á svæðinu frá New York og Boston og þar vestur af.

Snjókoman gæti þá breyst í slyddu eða rigningu eftir því sem líða tekur á þriðjudaginn.

Hætt hefur verið við ferðir þeirra lesta New York-borgar sem ganga ofanjarðar á morgun, frá og með klukkan fjögur í fyrramálið að staðartíma. Ekkert skólahald verður þá í Boston og New York á morgun.

„Þetta er góður dagur til að vera heima,“ segir ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, í tilkynningu.

Umfjöllun New York Times

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert