Trump sanni mál sitt

AFP

Háttsettur öldungadeildarþingmaður repúblikana, John McCain, hvatti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til þess að leggja fram sannanir fyrir því að forveri hans í starfi, Barack Obama, hafi látið hlera síma hans í kosningabaráttunni í fyrra. Eða draga fullyrðingar sínar þar að lútandi til baka. 

McaCain hefur ítrekað gagnrýnt Trump og lét þessi ummæli falla í viðtali við CNN í gær. Hann segir forsetann hafa tvo kosti í stöðunni. Annaðhvort að draga ummælin til baka eða leggja fram upplýsingar máli sínu til sönnunar. Bandaríska þjóðin eigi heimtingu á því.

„Ég hef enga ástæðu til þess að trúa því að þetta sé satt en ég tel líka að forseti Bandaríkjanna eigi að gera hreint fyrir sínum dyrum,“ sagði McCain.

Að sögn McCain þarf forsetinn aðeins að hringja í framkvæmdastjóra leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) og yfirmann leyniþjónustumála ríkisins og spyrja hvað hafi gerst. Því þeir viti fyrir víst hvort fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur hlerað Trump-turninn. Obama hefur í gegnum talsmann sinn neitað ásökunum Trump. En Trump hélt þessu fram í nokkrum færslum á Twitter nýverið.

Trump lagði ásökunina fram á Twitter án frekari rökstuðnings fyrir rúmri viku og líkti málinu við Watergate-hneyksli Richards Nixons. Talsmaður Obama hefur sagt að ásökun Trumps sé „einfaldlega röng“. Yfirmaður alríkislögreglunnar FBI, James B. Comey, og James R. Clapper, sem var yfirmaður leyniþjónustumála í forsetatíð Obama, hafa sagt að ekkert sé hæft í ásökun forsetans. Comey er sagður hafa beðið dómsmálaráðuneytið um að vísa ásökuninni á bug.

Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar, sem er í hópi átta þingmanna sem fá trúnaðarupplýsingar frá leynistofnunum bandaríska ríkisins, hefur ekki séð neitt sem staðfestir ásakanir Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert