Derek Walcott látinn

Derek Walcott árið 2007.
Derek Walcott árið 2007. AFP

Nóbelskáldið Derek Walcott er látið, 87 ára að aldri. Walcott lést að heimili sínu á karabísku eyjunni Sankti Lúsíu eftir langvarandi veikindi, að því er fjölmiðlar eyjunnar herma.

Hann hefur lengi þótt eitt mesta skáld Karíbahafsins og hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1992 og TS Eliot verðlaunin fyrir ljóðlist árið 2011.

Úr grein eftir Jóhann Hjálmarsson í Morgunblaðinu í mars árið 1993:

„Menn hafa fullyrt að ekki sé hægt með góðu móti að þýða ljóð. Fjölbreytni ljóðlistar Dereks Walcotts er slík að margir hafa hreinlega gefist upp á að líkja nákvæmlega eftir frumgerð ljóða hans, í staðinn þýtt frjálslega og m.a. látið bragarhætti hans eiga sig.

Nær óhugsandi telja margir að unnt sé svo vel fari að herma eftir enskkreólskum mállýskum ljóðanna. Jósef Brodskí hefur sagt um Derek Walcott, vin sinn, að það skipti einu um hvað Walcott yrki, öll ljóð hans séu sjálfsævisöguleg, ekki síst vegna málsins á þeim sem sé hluti hans sjálfs.

Brodskí er mikill aðdáandi Walcotts og notar um hann stór orð. Hann líkir honum við hafið og talar jafnframt um hlýjuna sem ljóðin miðla. Í þeim sé fólgið frelsi og þau gæði hið lifandi sál. Eitt af því sem sameinar þá Walcott og Brodskí er víðfeðmi ljóða þeirra og líka dálæti þeirra á bragarháttum og rími.

Vissulega hefur Walcott ort mörg stutt ljóð og hnitmiðuð. Eitt þeirra er Vetur í Greenwich Village sem birtist í fyrstu ljóðabók skáldsins, In a Green Night (1962):

Bókin er líf og
blaðið hvíta dauði,
ég sting því í ritvélina og sný valsinum
anda Bacardi-hugrekki.
Sannleikurinn er ekki léttari
en hann var fyrr á tímum,
en það sem Catullus og Villon heyrðu,
hvert orð
svart fótspor í skelfilegum snjónum“

Þekktustu verk hans eru hið epíska ljóð Omeros, sem er yfir 300 blaðsíður, ljóðabækurnar The Star-Apple Kingdom og Another Life, sem fjallar um æsku hans á Sankti Lúsíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert