Trump heldur áfram að reka sig á veggi

Trump talar við fréttamenn um borð í forsetaþotunni Air Force …
Trump talar við fréttamenn um borð í forsetaþotunni Air Force One. AFP

Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur áfrýjað úrskurði dómstóls í Marylandríki, sem hafnað hafði því að ný tilskipun forsetans um ferðabann tæki gildi.

Dómsmálaráðuneytið lét bóka áfrýjun hjá héraðsdómstólnum í Greenbelt í Maryland, tveimur dögum eftir að dómstóllinn, auk annars í Hawaii, úrskurðuðu að bannið mismunaði múslimum.

Málið mun nú fara fyrir alríkisdómstól í Richmond í Virginíu.

Trump hefur sagt að ferðabannið sé nauðsynlegt til að verja öryggi Bandaríkjanna og halda öfgamönnum í burtu. Fyrsta tilraun hans, í janúar síðastliðnum, meinaði ríkisborgurum sjö ríkja, þar sem múslimar eru í meirihluta, um inngöngu í landið.

Dómstóll í Washingtonríki tók bannið úr gildi á þeim grundvelli að það bryti gegn ákvæði stjórnarskrárinnar um mismunun vegna trúar.

Trump ásamt fjölskyldu sinni við komuna til Flórída í dag. …
Trump ásamt fjölskyldu sinni við komuna til Flórída í dag. Þar eyðir hann flestum helgum. AFP

Vísað til framboðsyfirlýsinga Trumps

Eftir árangurslausa áfrýjun ákvað ríkisstjórnin að lagfæra tilskipunina svo hún væri betur lögum samkvæm. En sú nýja hefur rekist á sömu veggi.

Henni er ætlað að loka landamærum Bandaríkjanna fyrir ríkisborgurum Íran, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen í níutíu daga, og í 120 daga fyrir öllum flóttamönnum. Írak var einnig á listanum í upphaflega banninu en var tekið af honum í því síðara.

Í Hvíta húsinu er því haldið fram að bannið beinist að löndunum sex þar sem öryggis- og upplýsingamál þeirra standist ekki kröfur Bandaríkjanna.

En þó tilskipunin nefni ekki múslima á nafn hafa dómstólar tekið til greina rök þess efnis, að yfirlýsingar Trumps á meðan hann var í framboði til forseta á síðasta ári, um að hann myndi hefja valdatíð sína á því að banna múslimum að koma inn í landið, beri frekar vitni um tilgang ferðabannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert