245 ferðamenn dáið á 12 árum

Minnisvarði þar sem lík Danielle McLaughlin fannst. Lögregla hefur handtekið …
Minnisvarði þar sem lík Danielle McLaughlin fannst. Lögregla hefur handtekið mann sem er grunaður um að hafa nauðgað henni og myrt. AFP

Fjölskyldur að minnsta kosti sex erlendra einstaklinga sem hafa látist í Goa á Indlandi á síðustu árum segjast telja mögulegt að þeir hafi ekki látist af slysförum eða náttúrulegum orsökum, þrátt fyrir að dauðsföll þeirra hafi verið flokkuð þannig af yfirvöldum.

245 útlendingar hafa látið lífið í Goa á síðustu 12 árum, nú síðast 28 ára kona með írskan og breskan ríkisborgararétt, sem var nauðgað og kyrkt eftir að hún yfirgaf partý á Palolem-strönd.

Goa hefur löngum verið álitin ferðamannaparadís en samkvæmt gögnum sem Guardian hefur undir höndum hafa sex útlendingar verið myrtir í ríkinu á síðasta áratug. Dauðsföll 157 útlendinga voru flokkuð sem slys eða sögð af náttúrulegum orsökum.

Þá voru 20 sjálfsvíg skráð í Pernem-héraði, 23 sagðir hafa drukknað og dánarorsök 39 sögð óþekkt eða ekki liggja fyrir enn sem komið er. Svo virðist sem erlendir menn á aldrinum 30 til 49 ára eigi helst á hættu að deyja í Pernem og héruðunum Anjuna, Mapusa og Canacona.

Goa hefur löngum þótt mikil ferðamannaparadís en tölfræði yfir dauðsföll …
Goa hefur löngum þótt mikil ferðamannaparadís en tölfræði yfir dauðsföll ferðamanna á svæðinu er sláandi. AFP

Líkt og fyrr segir draga sumir í efa að öll þau dauðsföll sem hafa verið flokkuð sem slys eða sögð af náttúrulegum orsökum hafi raunverulega borið þannig að.

Meðal þeirra er andlát Felix Dahl, 22 ára Finna, sem indversk yfirvöld sögðu hafa dáið vegna höfuðhöggs við fall. Krufning í Finnlandi leiddi hins vegar í ljós að það væri útilokað að fall hefði leitt til dauða Dahl. Að sögn lækna hefðu áverkar á höfði hans komið til vegna annars konar höggs.

Sextán dögum eftir að Dahl fannst látinn í janúar 2015 skolaði líki James Durkin upp á strönd í Canacona en hans hafði verið saknað í mánuð. Líkið var illa farið og ummerki um limlestingu. Dauði hans var flokkaður sem drukknun en dánardómstjóri í Bretlandi sagði því ósvarað hvort þriðji aðili hefði verið valdur að dauða Durkin.

Þá fannst Martin Neighbour látinn á Arambol-strönd í febrúar 2008 og var sagður hafa drukknað en að sögn systur hans Söru voru áverkar á líkinu líkt og hann hefði verið beittur ofbeldi.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert