Maður skotinn á flugvelli í París

Orly-flugvöllurinn í París er næststærsti flugvöllur höfuðborgarinnar.
Orly-flugvöllurinn í París er næststærsti flugvöllur höfuðborgarinnar. AFP

Öryggisverðir á Orly-flugvellinum í París skutu mann til bana, en hann hafði tekið vopn af hermanni sem var á vellinum. Þetta staðfestir innanríkisráðherra Frakklands. 

Haft er eftir vitnum að flugvöllurinn hafi verið rýmdur eftir að skothvellir heyrðust kringum 7:30 í morgun að íslenskum tíma. Maðurinn flúði inn í verslun á flugvellinum áður en öryggisverðir skutu hann til bana. Engan annan sakaði.

Haft er eftir talsmanni innanríkisráðuneytisins að verið sé að skoða hvort maðurinn hafi verið með sprengiefni á sér og hafa 3.000 manns þurft að rýma flugvöllinn. Einnig hefur öllu flugi til og frá flugvellinum verið frestað vegna málsins.

Hermaðurinn sem byssan var tekin af er hluti af svokölluðum „operation Sentinelle“-hópi sem var settur á laggirnar eftir hryðjuverkaárásirnar í París í janúar 2015. Er hlutverk hópsins meðal annars að gæta öryggis á flugvöllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert