Bað aldrei og drakk, segir faðirinn

Leit var gerð á heimili Belgacem í kjölfar atviksins á …
Leit var gerð á heimili Belgacem í kjölfar atviksins á flugvellinum. AFP

Faðir Frakka sem var skotinn til bana á Orly-flugvellinum í París í gær eftir að hafa ráðist á hermann segir son sinn ekki hafa verið hryðjuverkamann og að hegðun hans megi rekja til drykkju og eiturlyfjanotkunar.

„Sonur minn var enginn hryðjuverkamaður. Hann bað aldrei og hann drakk. Þetta er það sem gerist undir áhrifum áfengis og kannabiss,“ sagði faðir Ziyed Ben Belgacem við frönsku útvarpsstöðina Europe 1.

Mikill viðbúnaður var á flugvellinum í gær eftir að Belgacem greip í hermann og bar byssu að höfði hans. Hann tók riffilinn sem konan bar og sagðist vilja deyja fyrir Allah og myrða aðra, áður en hann var skotinn til bana af starfsbræðrum konunnar.

Atvikið átti sér stað um tveimur klukkustundum eftir að Belgacem skaut á lögreglu eftir að hafa verið stöðvaður fyrir hraðakstur eftir drykkju á bar.

Faðir Belgacem var handtekinn í gær en látinn laus eftir yfirheyrslur. Hann sagði son sinn hafa hringt í sig eftir að hann skaut að lögreglu og áður en hann lét til skarar skríða á flugvellinum.

„Pabbi, gerðu það fyrirgefðu mér. Ég klúðraði málum gagnvart lögreglumanni,“ sagði Belgacem við föður sinn. Faðrinn leitaði á lögreglustöð, þar sem hann fékk að vita að sonur hans væri látinn.

Yfirheyrslur yfir bróður og frænda Belgacem standa enn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert