Fannst skorinn á háls í skottinu

Frá Ítalíu.
Frá Ítalíu. mbl.is/Einar Falur

Lögregluyfirvöld á Ítalíu hafa hafið morðrannsókn eftir að breskur maður á áttræðisaldri fannst látinn í skottinu á bifreið sinni, með djúpan skurð á hálsinum. Anthony Collinssplatt vantaði aðra höndina og annan fótinn og gervilimir hans hafa ekki fundist.

Það var vinur Collinssplatt, 77 ára, sem fann hann aftur í Nissan Micra-bifreið í bílskúr við heimili Bretans í Pavullo, nærri Modena, 10. mars.

Hægri hönd Collinssplatt var útötuð blóði og þá fannst blóð í eldhúsinu. Upphaflega taldi lögregla því mögulegt að maðurinn hefði sjálfur valdið hálsáverkanum og klifrað upp í skott bifreiðarinnar, en nú er gengið út frá því að hann hafi verið myrtur.

„Niðurstaðan gæti þó orðið allt önnur,“ hefur Guardian eftir lögreglumanni.

Tim Keates, besti vinur Collinssplatt, segist ekki trúa því að vinur sinn til 35 ára hafi framið sjálfsvíg. Að sögn Keates stendur lögreglan á gati. Engin ummerki voru um innbrot en Collinssplatt var vanur að skilja útidyrahurðina eftir opna fyrir hundinn sinn.

Lögregla vinnur nú að því að yfirheyra nemendur Bretans og yfirfara bankareikninga hans.

Collinssplatt heimsótti fjölskyldu sína á Englandi á hverju ári. Hann gekk aldrei í hjónaband en var í sambandi með ítalskri konu og kom vel saman við son hennar. Að sögn Keates unni hann lífi sínu á Ítalíu.

Ítarlegri frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert