Martin McGuinness látinn

Martin McGuinness.
Martin McGuinness. AFP

Martin McGuinness, fyrrverandi varaforsætisráðherra heimastjórnar Norður-Írlands og áður foringi í írska lýðveldishernum, er látinn 66 ára að aldri. Þetta tilkynnti írski stjórnmálaflokkurinn Sinn Fein í dag sem McGuinness tilheyrði.

Fram kemur í frétt AFP að McGuinness hafi hætt þátttöku í stjórnmálum í janúar á þeim forsendum að hann ætti við alvarleg veikindi að stríða. Breska ríkisútvarpið BBC segir að banamein McGuinness hafi verið sjaldgæfur hjartasjúkdómur.

McGuinness tók þátt í sögulegum sáttum fyrir áratug þegar hann tók sæti í heimastjórn með Ian Paisley og Lýðræðislega sambandsflokknum sem eitt sinn var höfuðandstæðingur hans. Samstarfið var lykillinn að því að tryggja frið á Norður-Írlandi eftir átök sem staðið höfðu í áratugi og kostað meira en 3.500 líf.

McGuinness var áður foringi í írska lýðveldishernum sem barðist með vopnavaldi fyrir því að Norður-Írland sameinaðist Írlandi. Hann var fæddur í Derry á Norður-Írlandi árið 1950 og ólst þar upp á sama tíma og ofbeldisverk voru reglulega framin í borginni.

McGuinness gekk ungur til liðs við írska lýðveldisherinn og náði skjótum frama innan hans. Hann sat í fangelsi vegna þátttöku sinnar í honum en gerðist síðar talsmaður friðar og samdi við fulltrúa þeirra sem vildu halda í tengslin við Bretland og bresku ríkisstjórnina.

McGuinness varð varaforsætisráðherra heimastjórnar Norður-Írlands árið 2007 og starfaði með Paisley sem var forsætisráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert