Fjórir látnir og 20 særðir í London

Fjöldi sjúkrabíla á Westminster-brúnni, skammt frá breska þinghúsinu.
Fjöldi sjúkrabíla á Westminster-brúnni, skammt frá breska þinghúsinu. AFP

Að minnsta kosti fjórir létust og tuttugu særðust eftir hryðjuverkaárás við breska þinghúsið í London í dag. Þar ók maður á gangandi vegfarendur á Westminster-brúnni, stakk þvínæst lögreglumann fyrir utan þinghúsið áður en hann var skotinn til bana.

Lögreglumaður við þinghúsið skaut manninn en hópur fólks særðist illa á Westminster-brúnni en þangað fer fjöldi ferðamanna á hverjum einasta degi til að berja Big Ben augum.

Eitt fórnarlambanna flutt í sjúkrabíl.
Eitt fórnarlambanna flutt í sjúkrabíl. AFP

Bílnum var ekið á grindverk fyrir utan þinghúsið og vitni lýstu því þannig að maður hafi stokkið út úr farartæki við þinghúsið og stungið lögreglumann.

Í dag er ár liðið síðan 32 manns fórust í sprengjuárás í Brussel.

Varðbátur lögreglunnar siglir eftir ánni Thames.
Varðbátur lögreglunnar siglir eftir ánni Thames. AFP

Þinghúsinu var lokað og þingmönnum og starfsliði þingsins sagt að halda sig innandyra.

„Við lítum á þetta sem hryðjuverkaatvik,“ sagði lögreglan í yfirlýsingu.

Á meðal hinna látnu voru lögreglumaðurinn sem var stunginn og árásarmaðurinn. Talið er að maðurinn hafi verið einn að verki. 

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er óhult, að því er forsætisráðuneytið greindi frá. Hún var að undirbúa neyðarfund vegna árásarinnar.

Lögreglan girti af stórt svæði í Westminster og ferðamenn í London Eye, voru fastir í 135 metra hæð  í um eina klukkustund vegna árásarinnar.

Neðanjarðarlestarstöðinni  í Westminster var einnig lokað.

Ferðamenn sátu fastir í London Eye.
Ferðamenn sátu fastir í London Eye. AFP

Að minnsta kosti tíu manns fengu meðhöndlun lækna á Westminster-brúnni og þó nokkur sjúkrahús voru í viðbragðsstöðu.

Fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, Radoslaw Sikorski, var staddur í leigubíl á Westminster-brúnni. Hann sagðist hafa séð bíl „sem ók niður að minnsta kosti fimm manns...og það blæddi mikið úr einum þeirra“.

Fréttastofa Sky sýndi ljósmyndir af manninum sem er grunaður um árásina, liggjandi á sjúkrabörum.

Vopnaðir lögreglumenn á ferli.
Vopnaðir lögreglumenn á ferli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert