Segir Trump ekki ofar lögum

Neil Gorsuch situr fyrir svörum hjá hæfisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Neil Gorsuch situr fyrir svörum hjá hæfisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Enginn, ekki jafnvel forsetinn sjálfur, er ofar lögum, þetta sagði Neil Gorsuch, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi sem níunda dómarann við hæstarétt Bandaríkjanna, í yfirheyrslum hæfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í gærkvöldi. Gorsuch lagði áherslu á sjálfstæði sitt gagnvart öllum öðrum en lögunum og sagði engan hafa farið fram á fyrirframgefin loforð um hvernig hann muni dæma.

Hann ítrekaði líka fyrri gagnrýni sína á orð Trumps í garð dómara og dómstóla og sagði þau dapurleg. „Þegar einhver gagnrýnir heiðarleika og heilindi dómstóla eða raunverulegar ástæður alríkisdómara þá gerir það mig niðurdreginn. Mér finnst það niðurbrjótandi – af því að ég veit hið rétta,“ sagði Gorsuch.

Spurður hvort hann ætti þar við forsetann sagði Gorsuch: „Einhver á við alla.“

Sjálfur hefði hann gengið út ef Trump hefði beðið hann um að snúa við dómi sem talinn er hafa skapað þáttaskil hvað varðar réttinn til fóstureyðinga.

Sean Spicer tjáði sig um málið á Twitter síðar um kvöldið og sagði Gorsuch hafa verið að tala á almennum nótum og að hann hefði ekki nefnt nein nöfn.

Þingmenn demókrata gengu hart fram í yfirheyrslunum, enda ósáttir eftir að repúblikanar hindruðu Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, stóran hluta síðasta árs í að skipa níunda hæstaréttardómarann. Staðan losnaði þegar Antonin Scalia lést í febrúar 2016.

Gorsuch þótti standa sig vel í þessari fyrstu yfirheyrslu að sögn fréttavefjar BBC, en hann á eftir að sitja fyrir svörum hjá nefndinni tvisvar í viðbót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert