Ók bíl að mannfjölda í Belgíu

Bíll mannsins tekinn af vettvangi í Antwerpen. Í gær var …
Bíll mannsins tekinn af vettvangi í Antwerpen. Í gær var ár liðið frá hryðjuverkunum í Brussel. AFP

Franskur ríkisborgari hefur verið handtekinn í belgísku borginni Antwerpen, grunaður um að hafa ekið í átt að mannfjölda. 

Þetta hefur BBC eftir yfirvöldum í Belgíu.

Í frétt BBC kemur fram að bíl hafi verið ekið á miklum hraða um helstu verslunargötu borgarinnar áður en hann var stöðvaður. Engar fregnir hafa borist af slysum á fólki.

Lögreglan fann hnífa, óvirka byssu og vökva sem eftir á að bera kennsl á í bílnum.

Í gær var bíl ekið á fólk á Westminster-brúnni í London með þeim afleiðingum að tveir gangandi vegfarendur létust. Árásarmaðurinn stakk svo lögreglumann til bana. 

Í gær var einnig ár liðið frá hryðjuverkaárásunum í Brussel. 32 létust í þeim árásum.

Í frétt BBC segir að bíllinn hafi fyrst sést um kl. 10 í morgun að íslenskum tíma. Honum var ekið á mikilli ferð um verslunargötuna De Meir. Lögreglu- og hermenn brugðust strax við og reyndu að stöðva för bílsins. Það tókst ekki strax og komst bílstjórinn áfram yfir á rauðu ljósi. 

Þegar fleiri lögreglumenn komu á vettvang var hægt að stöðva bílinn og handtaka ökumanninn. Hann er 39 ára og franskur ríkisborgari. Í frétt BBC kemur einnig fram að hann eigi rætur að rekja til Norður-Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert