Árásin tók aðeins 82 sekúndur

Fórnarlamba Masood hefur verið minnst fyrir utan þinghúsið síðustu daga.
Fórnarlamba Masood hefur verið minnst fyrir utan þinghúsið síðustu daga. AFP

Það liðu aðeins 82 sekúndur frá því að bifreið Khalid Masood fór upp á gangstétt Westminster-brúarinnar þar til hann var skotinn til bana af lögreglu. Masood varð fjórum að bana í árásinni sem er alvarlegasta hryðjuverkaáras Lundúna í tíu ár.

Nú hefur Scotland Yard greint frá því að árásin tók aðeins tæpa eina og hálfa mínútu, frá klukkan 14:40 að staðartíma til klukkan 14:41. Greint er frá þessu á vef Sky News. 

Bifreiðin sem Masood ók fór fyrst upp á gangstétt Westminster-brúarinnar klukkan 14:40:08. Það var síðan klukkan 14:40:38 sem Masood klessti á girðingu þinghússins. Þaðan gekk Masood úr bílnum sínum og var síðan skotinn af lögreglu klukkan 14:41:30.

Fyrsta símtalið til neyðarlínu kom klukkan 14:40:59.

Enn er talið að Masood hafi verið einn að verki en ástæður árásarinnar liggja ekki enn fyrir. „Það er möguleiki á að við munum aldrei skilja af hverju hann gerði þetta,“ sagði aðstoðaryfirlögregluþjónninn Neil Basu í samtali við fjölmiðla.

„Sá skilningur dó mögulega með honum.“

Var vinsæll og hress unglingur

Khalid Masood, maðurinn sem ber ábyrgð á verstu hryðjuverkaárás á Lundúnir í meira en áratug, var einfari síðustu árin að sögn nágranna. Hann átti þó breytilega fortíð með fjölmörgum dulnefnum og dómum fyrir ofbeldis- og vopnaglæpi.

Masood fæddist árið 1964 en hét þá Adrian Russell Ajao. Hann var vinsæll í skóla sem unglingur og fannst „gaman að skemmta sér“. Hann var góður í fótbolta að sögn fyrrverandi skólafélaga hans, Stuart Knight, sem ræddi við fjölmiðla um Masood.

„Hann var frábær náungi, jarðbundinn og allir í kringum hann voru hrifnir af honum,“ sagði Knight. „Það var ekkert látlaust við hann, hann var góður íþróttamaður, móðir hans var kristin, hann var heilt á litið mjög góður gaur.“

Það liggur ekki fyrir hvernig Masood þróaðist úr vel liðnum íþróttamannslega byggðum námsmanni yfir í glæpamann en hann var fyrst dæmdur árið 1983, þegar hann var 19 ára gamall. Síðar fylgdu fleiri brot, m.a. fyrir alvarlega líkamsárás. Hann var síðast dæmdur árið 2003 fyrir að ganga um með hníf.

Hann hafði þó aldrei verið sakaður um glæpi tengda hryðjuverkum.

Masood var 52 ára gamall.
Masood var 52 ára gamall. AFP

Bjó tvisvar í Sádi-Arabíu

Eftir árásina á miðvikudaginn nafngreindi lögregla árásarmanninn sem Khalid Masood en hann hafði einnig notast við nafnið Adrian Elms. Greint var frá  því í dagblaði árið 2000 að Adrian Elms hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að stinga bareiganda í andlitið eftir rifrildi. Í dómsgögnum kemur fram að Elms, sem bjó þá í þorpinu Northiam, hafi játað gjörðir sínar en jafnframt er tekið fram að hann hafi verið einn af tveimur svörtum mönnum í þorpinu. Var gefið í skyn að rifrildið hafi verið „vegna átaka um kynþætti“.

Við réttarhöldin sagði lögmaður Elms að málið hafi haft gríðarlega neikvæð áhrif á fjölskyldu mannsins.

Sendiráð Sádi-Arabíu í Lundúnum hefur staðfest að maðurinn bjó í Sádi-Arabíu tvisvar, frá nóvember 2005 til nóvember 2006 og svo aftur frá apríl 2008 til apríl 2009.

Á þeim tíma starfaði Masood sem enskukennari. Í yfirlýsingu sendiráðsins kemur fram að árið 2015 hafi Masood verið með sérstakt landvistarleyfi til þess að fara til Mekka og gerði hann það í mars sama ár.

Eftir að Masood sat í fangelsi fyrir árásina á bareigandann virðist hann hafa búið hér og þar í Bretlandi, síðast í Birmingham. Lögregla gerði húsleit á heimilinu sem Masood og fjölskylda hans voru sögð hafa búið á í Birmingham. Átta af þeim ellefu handtökum sem gerðar voru eftir árásirnar voru í Birmingham.

Lögregla sást í gær bera kassa út af heimili í hverfinu Winson Green í Birmingham sem talið er að Mansood hafi búið í þar til í desember.

Sagður eiga börn á aldrinum 6-7 ára

Marjoli Gajecka sagðist í samtali við CNN hafa séð Masood og fjölskyldu hans oft þegar hún heimsótti móður sína sem bjó við sömu götu. Hún lýsti honum sem rólegum einfara. „Hann spjallaði eiginlega aldrei við nágrannana.“

Sagði hún Masood hafa átt tvö börn, dreng og stúlku sem hún sagði vera á aldrinum 6 til 7 ára.

„Þau virtust bara vera eðlileg múslimafjölskylda. Okkur grunaði ekkert,“ sagði hún um árásina. Hún sagði Masood hafa oftast klæðst „íslömskum fötum“ þegar hún sá hann. Þá sagði hún konu, sem hún bjóst við að hefði verið kona hans, klæðast slæðu sem huldi andlit hennar.

Masood og fjölskylda hans vöktu þó enga athygli í því fjölþjóðlega hverfi sem þau bjuggu í í Birmingham. Í um 3 kílómetra fjarlægð stendur íbúðin sem talið er að Masood og fjölskylda hans hafi búið í síðustu mánuði. Nokkrir voru handteknir á lóðinni á fimmtudaginn.

Raviyar Sedighi, sem á verslun fyrir neðan íbúðina sagði í samtali við CNN Masood hafa verið „eðlilegan viðskiptavin“ sem hann vissi að stundaði lyftingar.

Tveir lögreglubílar standa fyrir utan hús í Birmingham sem Masood …
Tveir lögreglubílar standa fyrir utan hús í Birmingham sem Masood er talinn hafa búið í með fjölskyldu sinni þar til í desember á síðasta ári. AFP

Hvernig varð hann róttækur?

Rannsókn lögreglu snýr nú að miklu leyti að því að komast að því hvernig Masood hlynntist öfgaskoðanir að sögn Mark Rowley, yfirmanns hryðjuverkadeildar bresku lögreglunnar. „Augljóslega er helsta áherslan á þær spurningar. Hvernig varð hann róttækur? Var það vegna áhrifavalda í samfélaginu, erlendis frá eða á netinu?“

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, sagði að árásarmaðurinn hafi verið þekktur hjá yfirvöldum vegna tengsla við „ofbeldisfulla öfgastefnu“.

Hann var rannsakaður fyrir nokkrum árum en ekki flokkaður sem alvarleg ógn.  

Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og sagt Mansood hafa verið einn af „hermönnum“ hryðjuverkasamtakanna. Breskur embættismaður sagði í samtali við CNN Masood á áhugaverðum aldri fyrir liðsmann Ríkis íslams. „52 ára er áhugaverður aldur. Ekki þetta venjulega ungviði.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert