Fleming elskaði mun eldri konu

Maud Russell og Ian Fleming voru ástfangin. Russell var gift …
Maud Russell og Ian Fleming voru ástfangin. Russell var gift og samband þeirra fór leynt.

Löngu áður en James Bond varð til í kollinum á Ian Fleming átti tæplega tuttugu árum eldri kona allan hug rithöfundarins tilvonandi. Samband þeirra var náið en fór leynt. Maud Russell, sem var þekkt í samfélagslífi Lundúna, var fertug en Fleming 23 ára um það leyti sem samband þeirra hófst.

En hver var þessi kona og hvernig kom samband þeirra til?

Í ítarlegri grein um Russell og Fleming í The Telegraph segir að þau hafi kynnst árið 1931. Þau löðuðust strax hvort að öðru og varð Fleming fljótlega fastagestur á setri hennar í Hampshire og á heimili hennar í Knightsbridge þar sem haldnar voru glæsiveislur sem þjóðþekktir einstaklingar sóttu stíft. 

Borgaði fyrir Goldeneye

Russell varð Fleming innblástur og leiðbeinandi sem útvegaði honum meðal annars starf í banka. Hún kynnti hann fyrir leyniþjónustumönnum og greiddi fyrir landareign hans á Jamaíka, Goldeneye, þar sem hann síðar skrifaði sögurnar um James Bond. 

Í grein Telegraph er vitnað í dagbækur Russell. Hún kallar Ian Fleming yfirleitt einfaldlega bókstafnum „I“ í færslum sínum. Ljóst er að henni fannst hann heillandi ungur maður sem varð náinn trúnaðarvinur hennar og elskhugi.

Dagbækurnar segja frá lífi Russell við lok síðari heimsstyrjaldarinnar er Fleming vann sem greinandi hjá sjóhernum og Russell, sem þá var orðin 52 ára, var nýorðin ekkja. Þrátt fyrir hindranir sem stríðið olli hafði parið rætt um að giftast. 

Í færslu sem skrifuð er 30. júní 1943 segist hún hafa borðað með „I“ og að hann hafi verið í góðu skapi. Hann gerði góðlátlegt grín að henni og sagði hana vinna of mikið. Hún sagði honum að hann hefði bjargað lífi sínu, „eða fært mér nýtt líf“.

Maud Russell gaf Ian Fleming peninga til að kaupa landareignina …
Maud Russell gaf Ian Fleming peninga til að kaupa landareignina Goldeneye á Jamaíka. Þar hóf hann að skrifa um James Bond á sjötta áratugnum.

Af auðugum ættum

Dagbækur Maud Russell hafa verið gefnar út af barnabarni hennar. Í þeirri bók, A Constant Heart: The War Diaries of Maud Russell, kemur fram að Maud og yngri systir hennar Kate hafi átt auðuga þýska foreldra og alist upp í sex hæða húsi í Knightsbridge. Í fyrri heimsstyrjöldinni kynntist hún Gilbert Russell í matarboði. Hann var yfirmaður leyniþjónustunnar og þau voru trúlofuð innan mánaðar. Síðar eignuðust þau tvo syni.

Þau héldu oft miklar veislur sem stjórnmálamenn, rithöfundar, tónlistarmenn og aðrir listamenn sóttu. Einn af gestunum var ungur blaðamaður hjá Reuters, Ian Fleming. Barnabarn Russell, Emily Russell, skrifar í bókinni að amma hennar hafi lýst honum „jafnmyndarlegum og föllnum engli.“

Á fjórða áratugnum urðu þau elskendur og samband þeirra varði í nokkur ár. Eftir að Gilbert, eiginmaður Russell, lést árið 1942 áttu þau enn lengi vel í ástarsambandi. 

Með hárlokk í umslagi

Emily Russell segir að meðal skjala ömmu sinnar hafi hún fundið lítið umslag með svörtum hárlokk. Utan á því stóð einfaldlega: „I“. 

Aðdáunin virðist hafa verið gagnkvæm því í bréfi sem Fleming skrifar til hennar árið 1945 er hann dvelur í Colombo stendur: „Þú er eina ástæðan fyrir því að mig langar að koma aftur til London.“

Russell og Fleming voru náin allt þar til hann giftist Ann Charteris árið 1952. Árið 1946 gaf Russell honum peninga til að kaupa Goldeneye á Jamaíka. Hún átti síðar í löngu ástarsambandi við annan mann en giftist aldrei aftur. Hún lést í London árið 1982, 91 árs að aldri.

Þá var Fleming löngu fallinn frá. Hann lést árið 1964, 56 ára að aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert