Kveiktu eld í fangelsi og létust

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigmundur Sigurgeirsson

Að minnst kosti þrír fangar létust og einn er alvarlega slasaður eftir að eldur braust út í fangelsi í Mexíkó. Fangarnir kveiktu sjálfir eldinn í mótmælaskyni. Í þessu sama fangelsi, sem er í norður­hluta Mexí­kó, sluppu að minnsta kosti 29 fang­ar út í gegnum 40 metra löng og fimm metra breið göng í vikunni. Fangarnir grófu sér leið út úr fangelsinu sem er í borg­inni Ciu­dad Victoria á Tamaulip­as-svæðinu.

Fangarnir mótmæltu því að lögreglan girti af svæðið þar sem göngin eru og meinaði þeim aðgang að. Í mótmælaskyni skutu fangarnir úr byssum, brenndu lök og létu ófriðlega með fyrrgreindum afleiðingum. Fangelsið er nú undir ströngu eftirliti, að sögn talsmanns fangelsisins. 

Aðstaðan í þessu fangelsi er með því versta sem þekkist í Mexíkó. Fangarnir sjálfir stýra lögum og lofum og eru jafnvel með sýnilega verslun innan múra fangelsisins. 

Fangelsi í Mexíkó eru undirfjármögnuð, allt of margir fangar eru í fangelsum landsins sem leiðir til mikilla óeirða og uppþota bæði milli fanganna sjálfra og við fangaverði og í ofanálag eru flóttatilraunir tíðar og yfirvöld eiga erfitt með að ná tökum á ástandinu. 

Af þessum 29 föngum sem flúðu á fimmtudaginn síðastliðinn náðust 12 þeirra fljótlega aftur og einn náðist í dag. Fangarnir myrtu að minnsta kosti einn á flóttanum þegar þeir stálu bíl til að komast undan. 

Á þessu svæði sem er ná­lægt landa­mær­um Banda­ríkj­anna ligg­ur þekkt smygl­leið eit­ur­lyfja yfir til Banda­ríkj­anna. Á svæðinu tak­ast glæpa­gengi á um yf­ir­ráð yfir eit­ur­lyfja­smygl­leiðum til Banda­ríkj­anna. 

Hér fyrir neðan má sjá göngin sem þeir grófu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert