Vildu flytja Gulen til Tyrklands

Fethullah Gulen býr í Bandaríkjunum.
Fethullah Gulen býr í Bandaríkjunum. AFP

Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Michael Flynn, ræddi um að flytja múslimaklerkinn Fethullah Gulen frá Bandaríkjunum.

Þetta segir James Woolsley, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, samkvæmt frétt BBC

Gulen er eftirlýstur af tyrkneskum stjórnvöldum, sem saka hann um að hafa staðið á bak við valdaránstilraunina sem var gerð í landinu í júlí síðastliðnum.

Í viðtali við Wall Street Journal sagðist Woolsley hafa verið viðstaddur umræður um að flytja Gulen úr landinu og átti þar að fara á svig við lög um framsal.

Fundurinn átti sér stað á hóteli í New York í september.

Michael Flynn.
Michael Flynn. AFP

Flynn var á þessum tíma þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta meðan á kosningaherferð hans stóð. Hann var viðstaddur fundinn ásamt tengdasyni Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, og Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.

Woolsley var á þessum tíma einnig ráðgjafi í kosningabaráttu Trumps. „Þarna voru alvarlegar umræður um að finna leiðir til að flytja Gulen frá Bandaríkjunum til Tyrklands,“ sagði hann.

Gulen, sem hefur búið í Pennsylvaníu frá árinu 1999, neitar því að hafa tekið þátt í valdaránstilrauninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert