Björguðu þúsund manns á sex tímum

Fólk bíður þess að því verði bjargað við strendur Líbýu.
Fólk bíður þess að því verði bjargað við strendur Líbýu. AFP

Björgunarsveitir björguðu um 1.000 manns af vanþróuðum gúmmíbátum við strendur Líbýu í nótt en fólkið var á leið til Evrópu. Ein kona fannst látin.

Læknar án landamæra sem tóku þátt í aðgerðunum greindu frá því að björgunaraðgerðirnar hefðu tekið um sex klukkutíma. Tvö björgunarskip sóttu fólkið sem var á leið til Ítalíu. Aðeins eru þrír dagar síðan talið var að um 250 Afríkubúar hefðu drukknað við strendur Líbýu.

Þrátt fyrir slæmt vetrarveður síðustu misseri hefur starfsemi þeirra sem hirða peninga fyrir að koma fólki á illa búna báta á leið til Evrópu aukist síðustu misseri. Síðustu vikuna hefur rúmlega 6.000 manns verið bjargað úr sjónum við Líbýu. 

Rúmlega 22.000 manns hefur verið bjargað frá áramótum en hjálparsamtök hafa lýst versnandi lifnaðaraðstæðum meðal flóttafólks og farandverkamanna í landinu. 

Þá telja Sameinuðu þjóðirnar að minnsta kosti 440 manns hafa drukknað við það að reyna að komast frá Líbýu til Ítalíu síðan í ársbyrjun 2017 og byggir sú tala á fundnum líkum og vitnisburði eftirlifenda. Enginn veit þó hversu margir hafa drukknað án þess að skilja eftir sig slóð.

Um hálf milljón manna, flestir frá Afríku, hefur reynt að komast yfir til Ítalíu á bátum frá seinni hluta árs 2013 og til síðustu áramóta. Á síðasta ári komust 180.000 alla leið sem var hækkun um 18% milli ára.

Rúmlega 22.000 manns hefur verið bjargað úr sjónum frá áramótum. …
Rúmlega 22.000 manns hefur verið bjargað úr sjónum frá áramótum. Meðal þeirra eru þessi systkini sem mynduð voru af ljósmyndara AFP við höfnina í Tripoli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert