Leyfir Trump konu á seðlinum?

Andrew Jackson prýðir 20 dala seðilinn en það á að …
Andrew Jackson prýðir 20 dala seðilinn en það á að breytast á næstu árum. Af Wikipedia

Hrifning Donald Trump af fyrirrennara sínum frá 19 öldinni, Andrew Jackson, hefur ýtt undir áhyggjur fólks af að hann muni láta hætta við að taka hinn umdeilda forseta af 20 dala seðlinum eins og stendur til.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því fyrir ári að fyrir árið 2020 yrði Jackson tekinn af seðlinum og Harriet Tubman sett í staðinn. Ákvörðunin vakti mikla athygli og gleði enda var Tubman kona og þar að auki svört, en hingað til hafa aðeins hvítir karlmenn verið á seðlum þjóðarinnar.

Tubman var fyrrverandi þræll sem slapp úr haldi og hjálpaði öðrum að gera það sama. Hún barðist einnig fyrir því að konur fengju að kjósa. Jackson á hinn bóginn var þekktur þrælahaldari.

Trump við gröf Andrew Jackson í síðustu viku.
Trump við gröf Andrew Jackson í síðustu viku. AFP

Tuttugu dala seðillinn er einn dreifðasti seðill Bandaríkjanna en um 9 milljónir eintaka eru í umferð.

Fjármálaráðuneytið lét gera könnun þar sem spurt var hver ætti að vera fyrsta konan til þess að prýða bandarískan peningaseðil og Tubman var valin. Aðrar sem voru nefndar voru mannréttindagoðsögnin Rosa Parks og forsetafrúin Eleanor Roosevelt.

En frá því að Trump var kjörinn forseti í nóvember á síðasta ári hafa verið uppi áhyggjufullar raddir um að hann láti hætta við áætlanir fjármálaráðuneytisins þar sem Trump virðist vera aðdáandi Jackson.

„Við fylgjumst náið með öllum mögulegum seinkunum á ferlinu,“ hefur AFP eftir  Barbara Ortiz, stofnanda samtakanna Women on 20s sem berst fyrir því að Tubman komist á 20 dala seðilinn.

Segir hún Trump nýta sér hvert tækifæri til þess að dásama kosti Jackson þrátt fyrir að hann hafi verið þrælahaldari og að hann hafi borið ábyrgð á því að Cherokee-indíánar þurftu að gefa frá sér lönd sín austan við Mississippi-ána og flytja til svæðis sem er í dag Oklahoma. Ferðalagið var kallað „Trail of Tears“ eða „Táraslóðin“. Þúsundir indíána létu lífið á ferðalaginu vegna hungurs, kulda og sjúkdóma.

Fimm dögum eftir að hann var settur í embætti í janúar sýndi Trump málverk af Jackson á áberandi stað á skrifstofu hans í Hvíta húsinu. Þá sagði helsti ráðgjafi Trump, Stephen Bannon, að innsetningarræða forsetans hefði verið mjög í anda Jackson.

Harriet Tubman.
Harriet Tubman. Af Wikipedia

Þá lagði Trump blómsveig að gröf Jackson í Tennessee í síðustu viku á 250 ára fæðingarafmæli hans. Þar nýtti Trump tækifærið til þess að lofsyngja „hinn frábæra“ Jackson og sagði hann hafa barist gegn „hrokafullri elítu“. „Hljómar það kunnuglega?“ spurði Trump.

Þegar ákvörðunin um að setja Tubman á seðilinn var kynnt á síðasta ári sagði Trump valið „ekkert nema pólitískan rétttrúnað“ og sagði hana frekar eiga heima á tveggja dala seðlinum sem er mjög sjaldan notaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert