Mehrieh – kúgunartæki og jafnréttistól

Sumir segja margar fjölskyldur hafa gert mehrieh að iðnaði, en …
Sumir segja margar fjölskyldur hafa gert mehrieh að iðnaði, en aðrir segja kerfið leið fyrir konur til að rétta hlut sinn. AFP

Þegar Sadegh gekk að eiga unnustu sína úr framhaldsskóla grunaði hann ekki að hann myndi enda uppi slyppur og snauður og eiga yfir höfði sér fangelsisvist vegna vangoldinnar skuldar við fjölskyldu eiginkonunnar.

En mehrieh-kerfið, þar sem tilvonandi eiginmenn heita því að greiða tiltekinn fjölda gullmynta ef til skilnaðar kemur, hefur orðið til þess að margir sitja í fangelsi og enn fleiri eru öreigar. Mehrieh þýðir væntumþykja en getur snúist upp í andhverfu sína.

„Mehrieh-gjaldið var hátt, 800 gullmyntir, en þegar við vorum að skipuleggja brúðkaupið spáðum við ekkert í því hvernig þetta gæti farið,“ segir Sadegh, sem skildi í fyrra eftir átta ára hjónaband.

Hver gullmynt er virði um 33 þúsund króna og sá sem fær greidd meðallaun má gera ráð fyrir því að vinna í 50 ár til að eignast 800 slíkar.

„Jafnvel þegar vandamálin fóru að koma upp og við töluðum um skilnað þá var það gagnkvæmt og það stóð ekki til að greiða mehrieh,“ útskýrir Sadegh, sem vildi ekki koma fram undir fullu nafni þegar hann ræddi við AFP.

Það sem gerðist hins vegar var að fjölskylda eiginkonunnar tók til sinna ráða og allt í einu var Sadegh kominn fyrir dómara, sem skipaði honum að reiða fram 110 gullmyntir án tafar, ellegar sæta fangelsi.

„Tilhugsunin um að enda í fangelsi vegna þessa, líkt og í bíómyndunum, virtist fáránleg,“ segir hann. „Mehrieh er gott sem fjárhagslegur stuðningur fyrir konuna í feðraveldissamfélagi á borð við Íran, en þetta er orðið að iðnaði.“

Kona sem hefur lagt fram fjármagn til að greiða skuldir …
Kona sem hefur lagt fram fjármagn til að greiða skuldir manna sem sitja í fangelsi vegna vangoldins mehrieh heldur á portrett-mynd við athöfn í Tehran. AFP

Sadegh, sem átti ekki krónu, náði samkomulagi við dómarann um að greiða jafnvirði 120 gullpeninga en eina á mánuði. Það myndi taka hann áratug að greiða skuldina og hver afborgun næmi hálfum mánaðarlaunum hans sem ljósmyndara.

En svo, fimm mánuðum síðar, missti hann vinnuna.

Sverð yfir höfðum manna

Þetta hefði getað farið verr. Samkvæmt dómsmálayfirvöldum sitja 2.297 menn í fangelsi í Íran vegna vangoldinna skulda í kjölfar skilnaðar.

Menn eygðu von í vikunni þegar efnt var til athafnar í Tehran til að heiðra þá sem hafa lagt til fjármagn til að greiða skuldir fanga. Peningagjafirnar hafa orðið til þess að 1.700 mehrieh-skuldarar hafa verið frelsaðir síðastliðið ár.

„Því miður hefur samkeppnin milli fjölskyldna leitt til síhækkandi mehrieh,“ segir Hadi Sadeghi, klerkur og starfsmaður dómskerfisins.

Hann segir mehrieh, sem fjölskyldur semja um þegar par trúlofar sig, hafa tapað upphaflegu hlutverki sínu sem heimanmundur sem brúðhjónin notuðu til að kaupa húsbúnað.

Nú er greiðslu gjaldsins venjulega frestað og því haldið yfir höfði manna sem hótun ef til skilnaðar kemur, eða það sem verra er, notað sem kúgunartæki.

„Verst er þegar fjölskyldur gera þetta að iðnaði. Drengir verða að vara sig á því að vera ekki blekktir,“ segir Sadeghi. „Það er líka rangt að nota mehrieh sem sverð fyrir ofan höfuð manna. Það leiðir bara til fleiri rifrilda og skilnaðar.“

Eitt þess sem gæti komið í stað mehrieh er að …
Eitt þess sem gæti komið í stað mehrieh er að kona eignist helming eigna eiginmanns síns við skilnað. AFP

Embættismenn viðurkenna að á síðustu árum hafi mehrieh orðið að stöðutákni og að fjölskyldur séu oft tregar til að gefa eftir þegar hjónabönd liðast í sundur.

„Þegar þær gifta stúlkurnar sínar snúast fyrstu spurningar fjölskyldna oft um mehrieh,“ segir Alireza Afsary, sem rekur stofnun til stuðnings föngum. „Sum lög þarf að laga og sumum menningarlegum og félagslegum hefðum þarf að breyta.“

Dómstólar hafa reynt að grípa inn í og segjast aðeins munu dæma eiginmennina fyrrverandi til að greiða 110 gullmyntir að hámarki. En fyrir marga Írana er sú upphæð allt of há.

Leið til jöfnunar

Á hinn bóginn horfa margar konur til mehrieh sem leiðar til að jafna stöðuna fyrir fráskildar konur, sem eru oft hunsaðar af samfélaginu sem þær búa í. Sumar afsala sér mehrieh gegn því að fá að vinna eða mennta sig, eða gegn loforðum um forræði barnanna ef til skilnaðar kemur.

„Kona sem gengur í hjónaband er ávallt hrædd um að eiga engan rétt ef til skilnaðar kemur, þannig að hún reynir að standa vörð um rétt sinn gegnum mehrieh,“ segir Safi, kvænt kona á þrítugsaldri.

Í upphafi skal endinn skoða, sagði einhver.
Í upphafi skal endinn skoða, sagði einhver. AFP

Allir eru sammála um að mehrieh hefur ekki dregið úr síhækkandi tíðni skilnaða í landinu, á sama tíma og Íran nútímavæðist og konur njóta aukins frelsis. Á síðasta ári voru skilnaðir 165.000 talsins en það er 15% fjölgun á fimm árum.

„Ef þeir eru að leita leiða til að styðja konur, og fyrir menn til að sýna fjölskyldum sínum trúfestu, þá ættu þeir að taka upp nýjar reglur [...] til dæmis að veita þeim rétt á helmingi eigna eiginmannsins,“ segir önnur ung kona, Shima 28 ára.

Hvað Sadegh varðar er hann fastur; hann þarf að borga gjaldið óháð því hvort hann hefur atvinnu eða ekki. Hann átti ekki fyrir síðustu greiðslu og kann að verða fangelsaður.

„Við vorum bekkjarsystkini og vorum saman í ár eða tvö áður en við gengum í hjónaband. Fjölskyldan hennar sagði hátt mehrieh tíðkast innan hennar og þau gætu ekki lækkað það. Fjölskyldan mín reyndi að þrátta en ég elskaði hana svo við gerðum engar kröfur.

Við héldum að allt myndi ganga vel til eilífðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert