Barn deyr á tíu mínútna fresti

Amal horfir út um glugga á heimili sitt sem eyðilagðist …
Amal horfir út um glugga á heimili sitt sem eyðilagðist í loftárás í höfuðborginni Sanaa. Og enn er sprengt í Jemen. Ljósmynd/UNICEF

Á tíu mínútna fresti deyr að minnsta kosti eitt barn í Jemen að meðaltali af völdum vannæringar, niðurgangs eða sýkingar í öndunarfærum. Allt eru þetta dauðsföll sem hægt væri að koma í veg fyrir. Til viðbótar eru börn drepin í átökum sem hafa stigmagnast frá því að borgarastyrjöldin braust út í mars 2015. Um 1.600 börn hafa verið drepin og 2.450 hlotið varanlegan, líkamlegan skaða.

Styrjöldin í Jemen hefur meðal annars brotið niður hagkerfi landsins, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Tæplega 15 milljónir Jemena hafa ekki lengur aðgang að heilbrigðisþjónustu, eða meira en tveir þriðju hlutar þjóðarinnar. Ítrekað hafa verið gerðar árásir á spítala og starfsmönnum í ofanálag ekki greidd laun svo að um helmingur sjúkrastofnana er óstarfhæfur.

Afleiðingar stríðsins eru þó mun fleiri. Þær hafa hríslast niður allt samfélagið. Og börnin hafa þjáðst mest.

mbl

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem gefin var út í dag. Skýrslan heitir: Dottið í gegnum glufurnar – börnin í Jemen. Í henni er lýst margvíslegum afleiðingum stríðsins á líf og heilsu fólksins í landinu.

Borgarastríðið hefur á tveimur árum getið af sér eina alvarlegustu mannúðarkreppu sem fyrirfinnst í heiminum í dag. Samfara niðurbroti innviða hefur skapast matarskortur og hungursneyð vofir víða yfir. Börn og fjölskyldur þeirra hafa sokkið í djúpt fátæktarfen.

Jemenar eru þrautseigir. Þeir hafa í áratugi þurft að þola einhvers konar skort. Þeir þekkja því leiðirnar sem neyðin þvingar þá að fara svo hægt sé að halda lífi, skrimta. Margir borða minna, senda börnin í vinnu í stað skóla og gifta dætur sínar kornungar. Þá hafa mörg börn verið látin ganga til liðs við stríðandi fylkingar.

Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna í Jemen. Um hálf …
Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna í Jemen. Um hálf milljón þeirra er við dauðans dyr af þessum sökum. Ljósmynd/UNICEF

Ahmed er einn þeirra.

Áður en hann var þvingaður til að berjast lifði hann eðlilegu lífi með fjölskyldu sinni. „Ég var eins og hvert annað barn. Ég vaknaði á morgnana og undirbjó mig fyrir skólann. Eftir skóla fór ég með bænirnar og svo að leika við vini mína,“ segir Ahmed.

En einn daginn breyttist allt. Nokkrir eldri vinir hans höfðu verið fengnir til að ganga til liðs við vopnaða hópa. Hann var beittur þrýstingi til að gera slíkt hið sama og lét að lokum til leiðast.

Í heilt ár var hann látinn gera hluti sem ekkert barn á að þurfa að taka sér fyrir hendur, allt frá því að taka beinan þátt í stríðsátökum og í að standa vörð, stundum alla nóttina.

Ahmed segir að það hafi enginn tími gefist til að vera barn. Ef hann var ekki á vígvellinum þurfti hann að sinna öðrum verkefnum. Allt eftir því hvað yfirmaðurinn fyrirskipaði.

„Mér var þröngvað til að berjast við hlið vina minna. Mér var afhent vopn og ég fór til að berjast. Flestir vinir mínir voru drepnir, sumir í orrustum sem við tókum saman þátt í.“

Ahmed lenti sjálfur í lífshættu. Áhrif stríðs á börn eru bæði líkamleg og andleg.

„Eftir að vinur minn var drepinn, varð ég veikur og þeir gáfu mér smá frí svo ég gæti farið til læknis. Ég var í meðferð í meira en mánuð,“ segir Ahmed. Á meðan þessu stóð komst Ahmed í kynni við starfsmenn samtaka sem UNICEF styðja í Jemen. Hann fékk hjálp við að takast á við áfallið sem hann varð fyrir og til að skilja við hermennskuna. Hann fór svo í enskunám. Ahmed er nú orðinn sautján ára og heldur enn í vonina um að friður komist á í Jemen. „Ég vil halda áfram námi og eiga bjarta framtíð. Ég vildi óska þess að stríðið tæki enda. Það er nóg komið.“

mbl

Hlutfall barna sem hlaut menntun í Jemen fyrir stríðið var lágt miðað við flesti ríki heims. Í kjölfar átakanna hefur það svo lækkað enn frekar. Tvær milljónir barna ganga nú ekki í skóla og til viðbótar geta 350 þúsund börn ekki farið í skólann þar sem skólum þeirra var lokað í fyrra. Stríðið hefur haft áhrif á starfsemi meira en 1.600 menntastofnana í landinu.

Nú höfum við ekkert að borða

Stríðið í Jemen ógnar matvælaöryggi landsins. Meira en sautján milljónir manna hafa ekki nægan aðgang að mat eða um 65% allra heimila sem þar er að finna. Þetta þýðir að Jemenar geta ekki fætt sig nægjanlega og þurfa oft að sleppa úr máltíðum og borða fæðu sem er næringarlítil. Að minnsta kosti 7,3 milljónir þarfnast mataraðstoðar til að draga fram lífið.

„Fyrir stríðið höfðum ég og eiginmaður minn vinnu. Þegar allt hrundi eftir að átökin brutust út, reyndum við að rækta grænmeti en  það er ekki öruggt vegna ofbeldisins sem viðgengst. Nú höfum við því sem næst ekkert að borða,“ segir Um Khawla, móðir eins árs gamallar stúlku. Dóttirin þjáist af alvarlegri vannæringu og fær nú meðferð við henni á sjúkrahúsi í höfuðborginni Sanaa.

Lítill drengur sem þjáist af bráðavannæringu fær aðhlynningu á heilsugæslustöð …
Lítill drengur sem þjáist af bráðavannæringu fær aðhlynningu á heilsugæslustöð sem UNICEF rekur í höfuðborginni Sanaa. Ljósmynd/UNICEF

Börn eru í bráðri lífshættu og grafreitir eru yfirfullir af litlum, ómerktum gröfum. Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna. Um hálf milljón þeirra er við dauðans dyr af þessum sökum.

Börn sem þjást af alvarlegri vannæringu eru tíu sinnum líklegri til að deyja en heilbrigð börn. Ástandið veikir ónæmiskerfi þeirra og því eru þau útsettari fyrir sjúkdómum. Lifi þau af eru miklar líkur á því að þau þroskist ekki eðlilega og hljóti varanlega örorku.

Barnungum brúðum fjölgar

Örlög barnanna í Jemen eru grimm. Til að sjá fjölskyldunum farborða er í auknum mæli gripið til þess ráðs að gifta stúlkur mjög ungar. Slíkt getur eyðilagt líf þeirra.

„Þetta var erfitt tímabil í lífi mínu. Ég neyddist til að takast á við eitthvað sem ég réði ekki við. Ég var barn sem var hvorki andlega né líkamlega tilbúið til að verða eiginkona. Ég var beðin um að gera ekkert sem barn myndi gera. Í gegnum gluggann fylgdist ég með börnum leika sér.“

Þannig lýsir sextán ára stúlka, Bilkis, því þegar hún var gift þrettán ára. Barnahjónabönd hafa lengi verið vandamál í Jemen en þar er giftingaraldur enn án allra lagalegra takmarkanna ólíkt því sem gerist víðast hvar í heiminum.

mbl

Í rannsókn UNICEF árið 2016 kom í ljós að barnahjónabönd voru ótrúlega útbreidd. Um 72,5% kvenna á aldrinum 15-49 ára sögðust hafa verið giftar áður en þær náðu átján ára aldri og 44,5% þeirra áður en þær urðu fimmtán ára.

Foreldrar gifta dætur sínar ungar til að þurfa ekki lengur að sjá fyrir þeim í landi þar sem fátækt hefur lengi verið útbreidd. Slíkum gjörningum fjölgar eftir því sem stríðið dregst á langinn.

Þrátt fyrir það hörmungar- og hættuástand sem geisar í Jemen hefur UNICEF tekist að ná til margra þeirra sem verst hafa orðið úti í stríðsátökunum. Samtökin hafa m.a. bólusett meira en 4,8 milljónir barna gegn mænusótt og rúmlega 650 þúsund gegn mislingum. Þá hafa 237 þúsund börn fengið meðferð við vannæringu fyrir tilstilli UNICEF. Samtökin hafa einnig unnið að því að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu. Nærri 1,7 milljón barna hafa geta stundað einhvers konar nám í landinu með aðstoð UNICEF og samstarfsaðila. Fleirum brýnum verkefnum hefur verið sinnt en ástandið er þó enn skelfilegt og um líf barna er að tefla.

Tvær milljónir Jemena hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Um …
Tvær milljónir Jemena hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Um 180 þúsund þeirra hafa flúið til annarra landa, m.a. Djíbúdí í Afríku. Þar hefst fólkið við í flóttamannabúðum í eyðimörkinni. Ljósmynd/UNICEF

UNICEF krefst þess því að fundin verði lausn á ástandinu í Jemen. „Stríðið verður að stöðva þegar í stað til að hlífa heilli kynslóð barna við sulti, áföllum og örbirgð. Allar stríðandi fylkingar verða að vinna að því að finna pólitíska lausn, að setja réttindi barna í þessu stríðshrjáða landi í forgang,“ segir meðal annars í ákalli þeirra.

UNICEF hvetur allar stríðandi fylkingar til að hætta þegar í stað árásum á óbreytta borgara og á borgaralega innviði. Fylkingarnar verði auk þess að koma í veg fyrir að börn taki þátt í átökunum. „Vernda á börn öllum stundum.“

Þá segja UNICEF að koma verði í veg fyrir hungursneyð með öllum tiltækum ráðum. Mun meira þurfi að gera svo að börn svelti ekki í hel.

Í því verkefni þurfa allir að taka þátt.

UNICEF hefur komið upp búðum í Jemen þar sem börn …
UNICEF hefur komið upp búðum í Jemen þar sem börn fá skjól undan stríðinu og afleiðingum þess. Þar er veittur margvíslegur stuðningur. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert