Fann nýfædda stúlku grafna lifandi

AFP

Þorpsbúar í austurhluta Indlands björguðu nýfæddu stúlkubarni á laugardaginn sem hafði verið grafið lifandi. Stúlkan, sem talið er að hafi aðeins verið um sex klukkustunda gömul þegar hún fannst, hafði verið skilin eftir til þess að mæta dauða sínum í grunnri holu. Henni varð það til lífs að vegfarandi rak augun í fætur hennar sem stóðu upp úr jarðveginum.

Fram kemur í frétt AFP að mörg slík mál hafi komið upp á Indlandi undanfarin misseri. Farið var með stúlkuna á sjúkrahús í snarhasti og er hún þar undir eftirliti að sögn embættismanna. Haft er eftir talsmanni sjúkrahússins í Jajpur-héraði, þar sem fátækt er landlæg, að stúlkan sé við góða heilsu og ástand hennar sé í jafnvægi. Hún sé fullvaxið barn og vegi um 2,5 kíló.

Starfsmenn sjúkrahússins hafa skírt stúlkuna Dharitri sem þýðir Jörðin á sanskrít. Hún verður falin ríkisrekinni barnaverndarnefnd eftir að hún hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsinu. Lögreglan segir að stúlkan hafi annaðhvort verið borin út af foreldrum sínum vegna kyns hennar eða að móðir hennar hafi átt hana utan hjónabands. Lögreglan leitar nú foreldranna.

Stjórnvöld á Indlandi hafa í gegnum ströng lög reynt að koma á eðlilegu jafnvægi á milli fæðinga stúlkna og drengja í landinu en 940 konur eru á hverja 1000 karla samkvæmt nýjustu opinberu tölum frá árinu 2011. Lögregla fann fyrr í þessum mánuði 19 kvenkyns fóstur í ræsi í vesturhluta Maharashtra-ríkis. Fyrir viku fannst kvenkyns fóstur grafið í borginni Nýju-Delí.

Indversk stjórnvöld bönnuðu á sínum tíma að hægt væri að vita kyn barna áður en þau fæddust til þess að koma í veg fyrir misnotkun. Engu að síður er slíkt enn algengt. Einkum í fátækari héruðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert