Debbie gæti náð 5. og hæsta mögulega stigi

Óveðursský yfir bænum Ayr í Norður-Queensland.
Óveðursský yfir bænum Ayr í Norður-Queensland. /AFP

Fellibylurinn Debbie nálgast nú strendur Queensland í Ástralíu óðfluga og mun ná landi innan nokkurra klukkustunda, í kvöld að íslenskum tíma en að morgni þriðjudags í Ástralíu. Jafnvel er búist við að bylurinn nái fimmta og hæsta stigi en hann hefur þegar náð fjórða stigi. 

Nú fer að nálgast morgun í Ástralíu. Eftir því sem líða tekur á daginn er búist við að bæti í veðrið. Fréttastofan ABC News í Ástralíu fylgist grannt með og flytur fréttir af óveðrinu og birtir myndbönd sem sýna vel hversu öflugur vindurinn er orðinn.

Gríðarmikill vindur er þegar farinn að láta til sín taka á landi og hreyfa við byggingum. Því er spáð að fellibylurinn nái mestum krafti fyrir hádegi að staðartíma í Ástralíu eins og spár standa núna en veðurspár breytast þó reglulega. Veðurstofan í Ástralíu hefur ekki útilokað að stigvaxandi vindhraði fellibyljarins nái fimmta og hæsta stiginu áður en hann nær ströndu.

Mikill viðbúnaður

Þúsundum íbúa og ferðamanna hefur verið gert að yfirgefa norðausturströnd landsins vegna yfirvofandi hættu og eyðileggingar af völdum Debbie sem sýnir engin veikleikamerki.

Viðbúnaður er í Ástralíu vegna óveðursins. Þó nokkrar fjöldahjálparstöðvar hafa verið opnaðar á þeim svæðum sem á þarf að halda og eru þær hugsaðar fyrst og fremst fyrir þá sem ekki hafa í önnur húsaskjól að vernda á meðan óveðrið gengur yfir. Skjólin eru þó aðeins hugsuð til skamms tíma og eru allir þeir sem það geta hvattir til að leita frekar skjóls hjá vinum og ættingjum.

Ljóst er að þegar er byrjað að blása ansi hressilega. Veðrið á þó bara eftir að versna miðað við núgildandi veðurspár og styttist í að Debbie nái landi í Queensland. 

NASA fylgist líka vel með Debbie.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert