Í leggings og fengu ekki að fljúga

Vél frá United Airlines í háloftunum.
Vél frá United Airlines í háloftunum. AFP

Flugfélagið United Airlines hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að banna tveimur stúlkum að fljúga þar sem þær voru í leggings-buxum. Þriðja stúlkan sem klædd var leggings fékk að fara um borð eftir að hún skipti um buxur, að sögn sjónarvotta.

Stúlkurnar ætluðu að fljúga með félaginu frá Denver til Minneapolis. Flugfélagið hefur frá því að málið komst í fréttir fengið harða gagnrýni á samfélagsmiðlum, m.a. Twitter. 

Í samtali við New York Times segir talsmaður United, Jonathan Guerin, segir að stúkurnar tvær hefðu „aðlagað“ fatnað sinn og til hefði staðið að þær tækju næstu vél. Hann vissi hins vegar ekki í gær hvort að þær hefðu farið um borð í hana. 

Kona sem varð vitni af atvikinu á flugvellinum sagði frá því á Twitter. Sú  heitir Shannon Watts sem er meðal annars þekkt baráttukona fyrir hertum vopnalögum vestanhafs. Hún var að bíða eftir flugi til Mexíkó á sama flugvelli og stúlkurnar. 

„Hún er að skipa þeim að skipta um föt eða fara í kjóla yfir leggings-buxurnar annars fái þær ekki að fara um borð,“ skrifaði hún á Twitter og bætti svo við: „Síðan hvenær er United með eftirlit með klæðnaði kvenna?“

Watts giskaði á að ein stúlknanna væri um tíu ára. „Hún leit venjulega út og var viðaeigandi klædd.“

Kvenfyrirlitning og afskiptasemi

Færslur Watts fór sem eldur í sinu um Twitter og margir lýstu yfir megnri óánægju á framgöngu flugfélagsins. Fannst fólki starfsmenn flugfélagsins hafa sýnt af sér kvenfyrirlitningu.

„Ég hef flogið með United hingað til án þess að vera í buxum, bara í bol sem kjól,“ skrifaði fyrirsætan Chrissy Teigen á Twitter. „Næst ætla ég að vera aðeins í gallabuxum og með trefil.“

United Airlines varði aðgerðir starfsmannsins í nokkrum færslum á Twitter. Sagði flugfélagið m.a. að stúlkurnar hefðu flogið á sérstökum aðgangsmiðum þar sem þess er krafist að þær fari eftir ákveðnum reglum um klæðnað. Í staðinn fái þær ókeypis flugferð eða mjög ódýra.

„Þegar fólk nýtir sér þetta þá er litið svo á að það sé fulltrúar United,“ var meðal þess sem flugfélagið sagði sér til varnar. Fólk sem nýtti sér þessa flugmiða yrði að fara eftir sömu reglum og starfsmenn fyrirtækisins. 

„Og eins og flest flugfélög þá erum við með reglur um klæðnað sem við biðjum starfsmenn og þá sem ferðast á þessum miðum að fylgja. Farþegarnir í morgun voru með United-passa og fóru ekki að reglum um klæðnað.“

Sum sé, skýringin felst að sögn flugfélagsins í því að stúlkurnar hafi sérstaka flugpassa sem þær ferðist á, og þurfi því að fylgja öðrum reglum en aðrir farþegar. 

„Öðrum viðskiptavinum er velkomið að klæðast leggings,“ sagði í einni færslu United. 

Stúlkurnar stofni sitt eigið flugfélag

En þetta friðaði fáa. Fólki finnst að flugfélagið sýni með þessu tvöfalt siðgæði og margir veltu fyrir sér hvað flugfélagið hefði með klæðnað þessara sérstöku miðahafa að gera. Aðrir bentu á að leggings-buxur væru hefðbundinn klæðnaður kvenna og auk þess þægilegar til að ferðast í.

„Leggings-reglan er eitthvað sem bjóst við frá Talibönum, ekki stóru vestrænu flugfélagi,“ skrifaði einn á Twitter. 

Leikkonan Patricia Arquette stakk upp á að stúlkurnar myndi stofna sitt eigið flugfélag og kalla það United Leggings. 

Nokkrir karlmenn segast ætla að klæðast slíkum buxum í næsta flugi sínum með félaginu. Leikarinn William Shatner birti mynd af sér í sokkabuxum og berum að ofan. „Ég hef klæðst svona áður,“ skrifaði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert