Nærist um slöngu vegna stríðs

Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna í Jemen. Um hálf …
Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna í Jemen. Um hálf milljón þeirra er við dauðans dyr af þessum sökum. Ljósmynd/UNICEF

Eins árs gömul stúlka, Khawla Mohammed að nafni, liggur í rúmi á sjúkrahúsi í Sanaa, höfuðborg Jemen. Slanga hefur verið tengd inn í nef hennar. Hún þjáist af vannæringu en glímir einnig við sýkingu í brjóstholi svo hún á erfitt með að draga andann.

 Við hlið hennar situr áhyggjufull móðir hennar. Hún segir að dóttir sín hafi verið veik meira og minna frá því hún var fjögurra mánaða.

„Fyrst fékk hún niðurgang. Hún varð svo létt að ég gat haldið á henni með annarri hendi. Svo missti hún matarlystina. Ég var mjög áhyggjufull,“ segir Um Khawla.

Hún hefur því oftsinnis þurft að fara með dóttur sína á sjúkrahús síðustu sex mánuði. Þar var hún greind með vannæringu og hóf meðferð við henni í sérstakri miðstöð sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, styður.

Þroskast ekki eðlilega

Nú er Khawla litla aðeins tæplega sex kíló en eins árs gömul börn eiga að vera um níu kíló.

Hún hefur legið á sjúkrahúsinu í tíu daga og fengið orkuríkt kex sem notað er til að takast á við vannæringu. Kexið er leyst upp í vökva og gefið litlu stúlkunni með slöngu í gegnum nefið. Svo hefur hún einnig fengið sýklalyf til að ráða niðurlögum sýkingar í öndunarfærum.

Í dag kom út skýrsla UNICEF um Jemen. Skýrslan heitir: Dottið í gegnum glufurnar – börnin í Jemen. Í henni er lýst margvíslegum afleiðingum stríðsins á líf og heilsu fólksins í landinu.

Tilfellum vannæringar í Jemen hefur fjölgað gríðarlega frá árinu 2014 eða um 200%. Nú þjást um 462 þúsund börn af vannæringu og mörg hver af bráðavannæringu og gætu því dáið ef þau fá ekki meðferð við henni strax.

Um 17 milljónir manna, eða 60% þjóðarinnar, hafa ekki nægjanlegan mat og meira en sjö milljónir vita ekki hvaðan næsta máltíð þeirra mun koma. Að minnsta kosti 14,5 milljónir eru án drykkjarhæfs vatns.

Jemen, kort.
Jemen, kort. mbl

„Fyrir stríðið höfðum ég og eiginmaður minn vinnu. Þegar allt hrundi eftir að átökin brutust út, reyndum við að rækta grænmeti en það er ekki öruggt vegna ofbeldisins sem viðgengst. Nú höfum við því sem næst ekkert að borða,“ segir Um Khawla.

Hún óttast ekki aðeins um yngstu dóttur sína heldur einnig um tvö önnur börn sín sem hún þurfti að skilja eftir í umsjá ömmu þeirra til að fara með stúlkuna á sjúkrahús. Börnin líða fæðuskort.

Stríðið hefur skapað mikla efnahagslægð. Verðbólga hefur stigmagnast og vöruverð hækkað í kjölfarið. Fjölskyldur hafa nýtt allan sinn sparnað og hafa svo þurft að skera allt niður við nögl. Meðal annars minnka matarskammta, fækka máltíðum og kaupa næringarlítinn, ódýrari mat.

Þúsundir í lífshættu vegna vannæringar

Stríðið í Jemen, sem nú hefur geisað í tvö ár, hefur haft gríðarlegar afleiðingar á fólkið í landinu. UNICEF telur að um 10 þúsund börn muni að öllum líkindum deyja á næstunni úr vannæringu og sjúkdómum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.

Þrátt fyrir það hörmungar- og hættuástand sem geisar í Jemen hefur UNICEF tekist að ná til margra þeirra sem verst hafa orðið úti í stríðsátökunum. Samtökin hafa m.a. bólusett meira en 4,8 milljónir barna gegn mænusótt og rúmlega 650 þúsund gegn mislingum. Þá hafa 237 þúsund börn fengið meðferð við vannæringu fyrir tilstilli UNICEF. Samtökin hafa einnig unnið að því að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu. Nærri 1,7 milljónir barna hafa geta stundað einhvers konar nám í landinu með aðstoð UNICEF og samstarfsaðila. Fleiri brýnum verkefnum hefur verið sinnt en ástandið er þó enn skelfilegt og um líf barna er að tefla.

Lítill drengur sem þjáist af bráðavannæringu fær aðhlynningu á heilsugæslustöð …
Lítill drengur sem þjáist af bráðavannæringu fær aðhlynningu á heilsugæslustöð sem UNICEF rekur í höfuðborginni Sanaa. Ljósmynd/UNICEF

Stríðið verður að stöðva

UNICEF krefst þess því að fundin verði lausn á ástandinu í Jemen. „Stríðið verður að stöðva þegar í stað til að hlífa heilli kynslóð barna við sulti, áföllum og örbirgð. Allar stríðandi fylkingar verða að vinna að því að finna pólitíska lausn, að setja réttindi barna í þessu stríðshrjáða landi í forgang,“ segir meðal annars í ákalli þeirra.

UNICEF hvetur allar stríðandi fylkingar til að hætta þegar í stað árásum á óbreytta borgara og á borgaralega innviði. Fylkingarnar verði auk þess að koma í veg fyrir að börn taki þátt í átökunum. „Vernda á börn öllum stundum.“

Þá segja UNICEF að koma verði í veg fyrir hungursneyð með öllum tiltækum ráðum. Mun meira þurfi að gera svo að börn svelti ekki í hel.

„Við erum að renna út á tíma og heimsbyggðin verður að bregðast skjótt við til að bjarga lífi barnanna í Jemen.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert