Sagði að blóðið væri tómatsósa

mbl.is/Hjörtur

Breskur hermaður myrti unnustu sína á heimili hennar í enska bænum Bournemouth og sagði síðan tveimur ungum börnum hennar að blóð úr henni væri tómatsósa. Þetta kom fram fyrir dómstóli í Bretlandi í dag þar sem maðurinn, Jay Nava, er ákærður fyrir morðið.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að Nava hafi ítrekað stungið unnustu sína, Natasha Wake, með hnífi. Börn hennar tvö hafi verið sofandi á efri hæð íbúðarinnar en hafi komið niður í kjölfar morðsins. Nava hafi þá sagt þeim að um tómatsósu væri að ræða, rekið þau upp aftur og bannað þeim að koma niður á nýjan leik.

Morðið átti sér stað í kjölfar þess að Nava og Wake rifust en tilefni rifrildisins var að Nava hafði fengið upplýsingar um að hann væri til rannsóknar hjá lögreglunni vegna meints kynferðisbrots gegn annarri konu. Wake var 26 ára þegar hún lést en Nava er árinu eldri.

Fram kom fyrir rétti að Nava hefði stungið Wake með eldhúshnífi með 20 sentimetra blaði. Stungurnar hafi verið með þvílíku afli að hnífurinn hafi gengið í gegnum hana. Börnin hafi séð Nava blóðugan með hnífinn og lík móður þeirra á gólfinu undir teppi.

Daginn eftir fór Nava með börnin til ömmu þeirra og afa. Síðan hafði hann samband við móður sína og viðurkenndi að hafa myrt Wake. Sagði hann henni einnig að hann ætlaði að taka eigið líf. Þegar lögregla hafði hendur í hári hans hafði hann gert tilraun til þess. Tókst þeim að bjarga lífi hans en hann sagði lögreglumönnunum að hann vildi deyja.

Nava skildi eftir miða á heimil Wake þar sem hann útskýrði hvers vegna hann hafi stungið hana, bað móður hennar afsökunar og sagðist ætla að taka eigið líf. Lík Wake fannst í skáp á heimili hennar. Hins vegar hefur Nava neitað fyrir dómi að hafa myrt Wake.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert