„Þessi fellibylur verður ófreskja“

Óveður í nánd. Skýin yfir Queensland bera það með sér …
Óveður í nánd. Skýin yfir Queensland bera það með sér að óveður sé í aðsigi. AFP

Ferðamenn eru meðal þeirra þúsunda sem hafa verið beðnir að yfirgefa norðausturströnd Ástralíu vegna fellibylsins Debbie sem lýst er sem „ófreskju“. Debbie hefur verið að sækja í sig veðrið á hafi úti síðustu sólarhringa en von er á því að hún gangi á land í kvöld að íslenskum tíma. Stjórnvöld vara við að mögulega muni hún hafa gríðarlega eyðileggingarmátt vegna mikils vindhraða. Þar sem háflóð verður í kvöld er einnig búist við flóðum af hennar völdum.

Fellibylurinn er nú fyrir utan Queensland og þegar hann kemur að landi verður hann orðinn að fjögurra stiga bil. Hæsta stigið er fimm. 

Íbúar hafa staðið í ströngu við að undirbúa sig fyrir komu Debbiear með því að verja hús sín, m.a. með sandpokum og plötum sem þeir setja fyrir glugga sína. 

Veðurstofan varar við því að fellibylurinn verði sá mesti sem komið hefur á land frá því árið 2011 þegar bylur sem kallaður var Yasi olli mikilli eyðileggingu. Yasi var svo öflugur að hann splundraði húsum og gjöreyðilagði uppskeru.

„Þetta er líklega stærsta rýming sem við höfum þurft að standa í,“ segir forsætisráðherra Queensland-fylki, Annastacia Palaszczuk. Hún býst við að veðrið muni valda skemmdum og rafmagnsleysi. „Þessi fellibylur verður ófreskja.“

Debbie hefur verið að sækja í sig veðrið fyrir utan …
Debbie hefur verið að sækja í sig veðrið fyrir utan Queensland-fylki síðustu sólarhringana. Nú nálgast hún land. AFP

Búast við flóðum

Þegar hafa 3.500 íbúar verið fluttir frá bæjum á svæðinu en fleiri verða að yfirgefa heimili sín. Sumir fara í öruggt skjól til ættingja en aðrir munu hafast við í sérstökum neyðarskýlum.

Allt að 25 þúsund manns verður gert að yfirgefa hættusvæðið. Búist er við allt að 2,5 metra hárri flóðbylgju.

Nú er talið að fellibylurinn muni ganga á land og valda miklum usla kl. 22 í kvöld að íslenskum tíma. 

Meira en 100 skólum á svæðinu hefur verið lokað vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert