Ófreskjan Debbie nær landi

Fellibylurinn Debbie er kominn að landi í norðausturhluta Ástralíu og er þegar farinn að valda usla. Debbie minnir helst á ófreskju og fer mikinn en vindhraðinn mælist allt að 73 metrum á sekúndu. Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands telst veður fárviðri þegar það nær 32,7 metrum á sekúndu sem er sami vindhraði og 12 vindstig. 

„Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri,“ segir í lýsingu á slíku ofsaveðri á Veðurstofu Íslands.

Fellibylurinn er fjórða stigs fellibylur en alls ná slíkar mælingar upp í fimm vindstig. Hann hóf yfirreið sína yfir Queensland í nótt og fylgir honum gríðarleg úrkoma. 

Rafmagn er farið af um 45 þúsund heimilum í Queensland og þegar hafa orðið skemmdir á húsum. Enn er of snemmt að segja hversu mörgum, segir í frétt BBC.

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, greindi þinginu frá því að hann hafi virkjað hamfaraáætlun ríkisins vegna óveðursins.

Yfir 25 þúsund íbúar Queensland voru beðnir um að yfirgefa heimili sín áður en óveðrið gekk yfir en talið er að Debbie fylgi verstu náttúruhamfarir sem íbúar Queensland hafa upplifað síðan árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert