Sækir Dylan aurinn um helgina?

Bob Dylan.
Bob Dylan. AFP

Sænska Nóbelsakademían hefur varað bandaríska tónskáldið Bob Dylan við því að fresturinn til þess að sækja verðalaunaféð renni út 10. júní. Dylan hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels í fyrra og hlaut að launum átta milljónir sænskra króna, sem jafngildir 100 milljónum íslenskra króna. Til þess að geta fengið peningana afhenta þarf handhafi Nóbelsverðlaunanna að flytja fyrirlestur innan sex mánaða frá formlegri afhendingu verðlaunanna 10. desember, daginn sem Nóbelsverðlaunin eru formlega afhent á fæðingardegi Alfreðs Nóbel.

Ekki eru neinar sérstakar kröfur um fyrirlesturinn - hann getur verið stutt ræða, gjörningur, myndútsending eða jafnvel söngur. 

„Ekkert hefur verið rætt við Bob Dylan undanfarna mánuði. Dylan veit hins vegar af því að Nóbels-erindið þarf að flytja í síðasta lagi 10. júní til þess að greiðslan fáist afhent, “skrifar  Sara Danius, ritari sænsku akademíunnar í bloggfærslu í gær.

„Hvað hann ákveður að gera er hans mál,“ bætir hún við.

Dylan ætlar að halda tónleika í Stokkhólmi 1. og 2. apríl og í Lundi 9. apríl. Orðrómur hefur verið uppi um að hann muni jafnvel flytja erindi sitt í Svíþjóðarheimsókninni. Danius segir að tónleikar Dylans í Stokkhólmi hafi verið löngu ákveðnir þegar Nóbelsnefndin tilkynnti um ákvörðun sína í október.

Engu skiptir hvort Dylan flytur erindið - hann er handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels árið 2016. Dylan er fyrsta tónskáldið sem hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels en hann mætti ekki við verðlaunaathöfnina í desember. Dylan er ólíkindatól og því verða menn væntanlega bara að bíða og sjá hvað hann gerir. 

Hann er ekki sá fyrsti sem ekki mætir við athöfnina en Doris Lessing, sem hlaut verðlaunin 2007, mætti ekki vegna hás aldurs. Harold Pinter (2005) mætti ekki heldur þar sem hann lá á sjúkrahúsi og Elfriede Jelinek (2004) neitaði að koma þar sem hún þolir ekki margmenni. En öll þeirra fluttu erindi sem þau annað hvort sendu til Stokkhólms eða voru lesin upphátt annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert