Fann fæðingarskírteini Litháens

Dalia Grybauskaite, forseti Litháens.
Dalia Grybauskaite, forseti Litháens. AFP

Litháískur sagnfræðingur tilkynnti í dag að hann hefði fundið eintak af sjálfstæðisyfirlýsingu Litháens frá árinu 1918 í skjalasafni þýska utanríkisráðuneytisins. Með yfirlýsingunni varð Litháen aftur sjálfstætt ríki eftir að hafa verið lengi undir stjórn Rússlands.

Sagnfræðingurinn, Liudas Mazylis sem er prófessor við Vytautas Magnus háskólann, sagði um að ræða yfirlýsingu á litháísku með undirskriftum allra þeirra tuttugu einstaklinga sem ritað hefðu undir hana og hafi hún legið við hlið þýskrar útgáfu af sama skjali.

Sjálfstæðisyfirlýsingin var gefin út í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og rússnesku byltingarinnar. Dalia Grybauskaite, forseti Litháens, sagði í dag í kjölfar fréttanna líklegt að um væri að ræða eitt af upprunalegum eintökum sjálfstæðisyfirlýsingarinnar.

Önnur eintök af sjálfstæðisyfirlýsingunni hafa ekki fundist síðan í síðari heimsstyröldinni. Haft er eftir Eimutis Misiunas, innanríkisráðherra Litháens, að um væri að ræða sögulegan dag fyrir alla föðurlandsvini og lýsti vilja sínum til að fá „fæðingarskírteinið“ heim aftur.

Litháíska fjármálafyrirtækið MG Baltic lýsti því yfir í síðasta mánuði að verðlaunum upp á eina milljón evra væri heitið þeim sem gæti fundið sjálfstæðisyfirlýsinguna og komið henni aftur heim til Litháens. Haft er eftir Mazylis að hann hefði þó ekki verið að þessu fyrir peningana.

Litháen var sjálfstætt ríki á millistríðsárunum en landið var síðan hernumið af fyrst Sovétríkjunum og síðan þýskum nasistum í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið lögðu Sovétmenn landið undir sig en það varð síðan aftur sjálfstætt 1990 við fall Sovétríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert