Bann við tilskipun Trump framlengt

Mótmælt við Trump turninn.
Mótmælt við Trump turninn. AFP

Bandarískur alríkisdómari á Hawaii hefur framlengt um óákveðið tíma bann við tilskipum Donald Trump Bandaríkjaforseta varðandi komu fólks frá sex ríkjum til landsins.

Úrskurður dómarans, Derrick Watson, þýðir að Trump getur ekki komið ferðabanninu á meðan það er enn á dómstigi en gert er ráð fyrir að það verði tekið fyrir hjá áfrýjunardómstóli í maí.

Í dómsskjölum málsins sem ríkið (Hawaii) hefur höfðað kemur fram að ferðabannið muni hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og möguleika á að fá þangað útlenda námsmenn og vinnuafl.

Trump segir aftur á móti að ferðabanninu sé ætlað að koma í veg fyrir komu hryðjuverkamanna til landsins. 

Watson birti úrskurð sinn seint í gærkvöldi eftir að hafa hlýtt á málatilbúnað saksóknara Hawaii ríkis og bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Sú breyting hefur orðið á fyrri úrskurði dómarans í málinu að úrskurður hans er nú bráðabirgða lögbann sem hefur meiri réttaráhrif en fyrri ákvörðun hans, samkvæmt frétt BBC.

Ef fyrirskipun Trumps hefði orðið að veruleika mætti fólk frá Íran, Líbýu, Súdan, Sómalíu og Jemen ekki koma til Bandaríkjanna í 90 daga og ekki yrði tekið á móti flóttafólki í 120 daga. Í fyrri útgáfu tilskipunar Trump var gert ráð fyrir að fólk frá Írak mætti ekki koma til Bandaríkjanna en fallið var frá því í seinni útgáfunni þar sem stjórnvöld í Írak hafa bætt eftirlit með ferðaskjölum og gert samkomulag um að deila upplýsingum með bandarískum yfirvöldum.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert