Mislingafaraldur tengdur einum leikskóla

Einungis um 80% barna á leikskólanum höfðu verið bólusett gegn …
Einungis um 80% barna á leikskólanum höfðu verið bólusett gegn mislingum, sem er ekki nógu hátt hlutfall. AFP

Fimmtán mislingatilfelli hafa komið upp í Svíþjóð frá áramótum. Ellefu tilfellanna komu upp í Stokkhólmi og mátti rekja hluta þeirra til leikskóla í borginni. Börnin hafa legið í einangrun á Karólínska sjúkrahúsinu þar sem Óli Hilmar Ólason er í sérnámi í barnalækningum.

„Þetta hafa bæði verið lítil börn, eins og gerðist á Íslandi þegar barn smitaðist sem ekki var búið að fá bólusetningu sína, en síðan kom líka upp grunur um smit hjá starfsmanni á Karólínska,“ segir Óli Hilmar.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að sóttvarnalæknir hér á landi ynni að því að hafa sam­band við fólk sem komst í snert­ingu við níu mánaða gam­alt íslenskt  barn sem komið var með á Barnaspítala Hringsins, vegna misl­ing­asmits.  

Óli Hilmar segir að upphaflega hafi komið upp eitt mislingatilfelli í Stokkhólmi, en þegar á leið hafi komið upp smá faraldur á leikskóla í norðvesturhluta borgarinnar þar sem einungis um 80% barnanna voru bólusett. Eigi vel að vera þá þurfa helst um 95% barna að vera bólusett. „Þangað var hægt að rekja smittilfelli og þetta hefur vakið miklar áhyggjur.“

Í einangrun á smitsjúkdómadeild

Börnin hafa legið í einangrun á Karólínska sjúkrahúsinu og í kjölfarið kom upp grunur um smit hjá starfsmanni  sem var þó bólusettur fyrir sjúkdóminum. „Hann var þó með vægari útgáfu af sjúkdóminum,“ segir Óli Hilmar og kveður viðkomandi einstakling ekki hafa orðið alvarlega veikan. „Þetta sýnir þó kannski hvað best hvað mislingar eru vandmeðfarnir því að starfsfólkið getur líka smitast, jafnvel þó að það sé bólusett.“

Hann segir heilbrigðisyfirvöld í Stokkhólmi gera ráð fyrir að fleiri tilfelli muni greinast. „Það síðasta sem ég las var að heilbrigðisyfirvöld telja sig ekki hafa séð það síðasta.“

Fréttatilkynning hafi verið send út og áskorun um að foreldrar láti bólusetja börn sín, enda beini svona tilfelli athyglinni að því hve mikilvæg bólusetningin sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert