Drápu tugi barna

AFP

Af þeim 72 almennu borgurum sem létust í efnavopnaárás á þorp í Idlib-héraði í Sýrlandi í gærmorgun voru 20 börn. Stjórnvöld í Rússlandi segja sýrlenska herinn hafa gert árásina. Hún hafi beinst gegn „hryðjuverkavöruhúsi“. Talið er nánast öruggt að mun fleiri hafi látist í árásinni þar sem fjölda fólks er enn saknað. Rússar halda því fram að í þorpinu hafi verið framleiddar jarðsprengjur og annar búnaður fyrir hryðjuverkamenn.

Þetta er í takt við útskýringar sem háttsettir menn innan sýrlenska hersins hafa haldið fram en þeir segja að ekki hafi verið um efnavopnaárás að ræða heldur hafi sprenging orðið í efnavopnaverksmiðju uppreisnarmanna í þorpinu.

Í yfirlýsingu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu segir að samkvæmt gögnum sem loftferðaeftirlit Rússa sýni að Sýrlandsher hafi hæft stóra vörugeymslu hryðjuverkasamtaka, skammt frá Khan Sheikhun.

Í vöruhúsinu hafi verið geymdur búnaður til þess að búa til sprengjur þar á meðal eiturefni. Ekki kemur fram í yfirlýsingunni hvort vöruhúsið hafi verið viljandi sprengt upp eður ei.

Varnarmálaráðuneytið segir að efnavopin hafi átt að fara til vígamanna í Írak og kemur fram að þetta séu fullkomlega áreiðanlegar upplýsingar. 

Myndir af vettvangi sýna borgara, þar á meðal fjölmörg börn, við það að kafna og lekur hvít froða úr munnvikum þeirra. Vitni segja að til þess að bæta gráu ofan á svart hafi verið gerðar loftárásir á heilsugæslustöðvar þar sem verið var að veita fórnarlömbum árásarinnar læknisaðstoð. Ekki er vitað með fullri vissu hvaða efnavopnum var beitt í árásinni en allt bendir til þess að um sarín-taugagas hafi verið að ræða.

Reynt að bjarga manni úr húsarústum í Khan Sheikhun.
Reynt að bjarga manni úr húsarústum í Khan Sheikhun. AFP

Neyðarfundur verður haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York í dag vegna árásinnar en fleiri tugir ef ekki hundruð eru sárir eftir árásina sem er mannskæðasta efnavopnaárásin sem gerð hefur verið í Sýrlandi frá því stríðið braust þar út fyrir sex árum.

Gríðarleg reiði er út um allan heim vegna árásarinnar og saka meðal annars bandarísk yfirvöld sýrlensk stjórnvöld um að bera ábyrgð á árásinni. Yfirvöld í Damaskus neita því hins vegar. Fátt annað er rætt á tveggja daga fundi fulltrúa 70 ríkja í Brussel á vegum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna en árásin en á fundinum átti að ræða mögulega neyðaraðstoð til handa Sýrlendingum.

AFP

Öll gögn benda til þess að forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, standi á bak við efnavopnaárás á þorpið, segir utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson. Hann segir að svo virðist sem forseti landsins hafi beitt ólöglegum vopnum gegn eigin þjóð. Johnson ræddi við fjölmiðla þegar hann kom á Sýrlandsfundinn í Brussel í morgun.

Tæplega fimm milljónir Sýrlendinga hafa flúið land og yfir sex milljónir eru á vergangi í heimalandinu. Óvíst er hversu margir hafa látist í stríðinu en þar heyrast tölur allt frá 300 þúsund upp í hálfa milljón. Sennilega mun rétt tala aldrei liggja fyrir.

Börn sem áttu heima í þorpi í Idlib.
Börn sem áttu heima í þorpi í Idlib. Skjáskot af Twitter

Frakkar og Bretar fóru fram á að öryggisráðið myndi koma saman í dag vegna árásarinnar á þorpið Khan Sheikhoun í Idlib snemma í gærmorgun. Þorpið er undir yfirráðum uppreisnarmanna líkt og stór hluti Idlib-héraðs en þangað voru margir íbúar Aleppo fluttir eftir að samkomulag náðist um yfirtöku stjórnvalda á borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka