Malala nýr friðarsendiboði SÞ

„Breytingar byrja með okkur og þær ættu að byrja núna,“ …
„Breytingar byrja með okkur og þær ættu að byrja núna,“ sagði Malala Yousafzai þegar tilkynnt var að hún væri nýr friðarsendiboði Sameinuðu þjóðanna. AFP

Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai hefur verið gerð að friðarsendiboða hjá Sameinuðu þjóðunum. Fréttavefur BBC segir hana vera yngsta einstakling sem gegnt hefur þessu hlutverki.

Malala er 19 ára og er að ljúka menntaskólanámi mun fá það hlutverk að beina athyglinni að menntun stúlkna, en hún slasaðist alvarlega þegar hún varð fyrir árás talibana árið 2012 þegar hún var að berjast fyrir réttindum stúlkna til að mennta sig.

Tilkynnt var um friðarsendiboðaskipanina  í New York, „Breytingar byrja með okkur og þær ættu að byrja núna,“ sagði Malala við það tækifæri. „Ef maður vill að framtíðina bjartari, þá verður maður að hefjast handa núna og ekki bíða eftir öðrum.“

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, lýsti henni sem „táknmynd mögulega þess mikilvægasta í heiminum – menntun fyrir alla.“

Malala greindi frá því í síðasta mánuði að henni hefði boðist að lesa stjórnmál, heimspeki og hagræði við háskóla í Bretlandi, reynist menntaskólaeinkunnir hennar nógu góðar. Hún gaf ekki upp hvaða háskóli þetta væri, en áður hafði hún sagt frá því að hún færi í viðtal við einn af háskólum Oxford.

Meðal annarra þekktra einstaklinga sem hafa gegnt hlutverki friðarsendiboða má nefna Muhammad Ali, George Clooney, Michael Douglas, Leonardo DiCaprio, Stevie Wonder og Charlize Theron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert