Höfðum ekki tíma til að hugsa okkur um

Sýrlensku flóttamennirnir sem Frans páfi tók með sér í flugvél sína er hann heimsótti flóttamannabúðir á Lesbos í Grikklandi á síðasta ári eru nú farnir að aðlagast lífinu á Ítalíu.

Í stað þess að hafa áhyggjur af stríðsátökum snúast áhyggjur þeirra nú um atvinnuöryggi í landi þar sem atvinnuleysi er hátt.

Líf Sýrlendinganna 12 breyttist hratt, eftir að hafa verið vikum saman fastir í flóttamannabúðum á Lesbos, þá bauð páfi þeim að koma með sér heim til Ítalíu næsta dag.

Nour og Riad, þriggja ára, aðlagast lífinu á Ítalíu vel.
Nour og Riad, þriggja ára, aðlagast lífinu á Ítalíu vel. AFP

Komin með húsaskjól og í ítölskunám

„Við höfum ekki tíma til að hugsa okkur um,“ sagði Nour, sem er 32 ára. Hún flúði stríðið á Sýrlandi ásamt eiginmanni sínum Hassan og þau höfðu verið á leið til Frakklands, en Nour er með meistaragráðu í plöntulíffræði frá háskólanum í Montpellier. Það hafði aldrei hvarflað að þeim að óska eftir hæli á Ítalíu, en þau gripu samt tækifærið.

Ferð páfa til Grikklands var farin til að beina kastljósinu að þeim ömurlegu aðstæðum sem þúsundir flóttamanna búa við eftir að komuna til Evrópu. Páfi hefur verið duglegur að gagnrýna Vesturlandabúa fyrir sinnuleysi þeirra í garð flóttamanna og hefur hann verið ötull talsmaður þeirra.

Vatíkanið greiddi fyrir veru þriggja fjölskyldna hjá kaþólska söfnuðinum í Sant'Egidio, sem hefur átt þátt í að koma 700 Sýrlendingum í skjól á Ítalíu.

Hluti þeirra 12 sýrlensku flóttamanna sem Frans páfi tók með …
Hluti þeirra 12 sýrlensku flóttamanna sem Frans páfi tók með sér frá Lesbos við komuna til Ítalíu á síðasta ári. AFP

Fjölskyldurnar þrjár, sem allar eru múslimar, voru á örskotsstundu komnar með húsnæði og farnar að sækja ítölskutíma og búið að skrá börnin í skóla.

Farin að aðlagast friðarlífi

Innan nokkurra mánaða var búið að samþykkja skráningu þeirra sem flóttamenn og þau voru byrjuð að aðlagast „friðarlífi.“

Nour  fékk í síðasta mánuði vinnu sem líffræðingur á Bambino Gesu spítalanum í Róm og konurnar í hinum fjölskyldunum tveimur starfa nú við þrif.

Hassan, maður hennar sem er garðyrkjufræðingur, varð hins vegar að sætta sig við að fá vinnu nokkra daga í viku á verkstæði. „Ég hef áhyggjur eins og allir aðrir, hvernig líf okkar mun þróast og hvort Hassan fái ekki vinnu,“ sagði Nour á ítölsku við blaðamann AFP.

Hún veit hins vegar að í landi þar sem atvinnuleysi er 11% og 35% meðal ungs fólks þá eru áhyggjur Sýrendinganna ekkert einsdæmi.

Frans páfi heilsar flóttafólki á Lesbos er hann heimsótti búðirnar.
Frans páfi heilsar flóttafólki á Lesbos er hann heimsótti búðirnar. AFP

Fyrirmynd trúaðs fólks alls staðar

Páfi bauð Sýrlendingunum í hádegisverð í Vatíkaninu í ágúst í fyrra. „Páfinn breytti lífi okkar á einum degi. Hann er alvöru fyrirmynd fyrir allt trúað fólk. Hann notar trú sína til að þjóna fólki,“ sagði Nour sem komst við þegar páfi mundi nafn hennar er þau hittust á ný nú í febrúar.

Daniela Pompei sem starfar fyrir Sant'Egidio og sem unnið hefur með Sýrlendingunum, segir þeim hafa gengið vel að aðlagast ítölsku samfélagi.

„Markmið okkar nú er að þessar fjölskyldur verði fullkomlega sjálfstæðar og hafi fulla stjórn á eigin lífi,“ sagði hún.

Aðlögunin hefur þó ekki reynst auðveld fyrir þá Abdelmajid, 16 ára, og Rachid, 19 ára sem fóru með foreldrum sínum og systur í vél páfa. Yngri drengurinn er nú í menntaskóla en Rachid á í erfiðleikum með að ná tökum á ítölskunni, sá yngsti þeirra Riad á hins vegar auðveldast með að aðlagast hinu nýja lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert