Kosið á morgun um kosningar

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst leggja fyrir breska þingið á morgun þingsályktunartillögu um að boðað verði til þingkosninga 8. júní. Hún tilkynnti þá fyrirætlan sína í morgun að fram færu kosningar í sumar fyrr en kjörtímabilinu lýkur.

Fyrir 2010 gátu breskir forsætisráðherrar boðað til kosninga hvenær sem er samkvæmt eigin ákvörðun en með lögum sem samþykkt voru það ár var fimm ára kjörtímabil fest í sessi. Hins vegar er hægt að boða til kosninga fyrr með samþykki 2/3 þingmanna.

Gengið er út frá því sem gefnu í breskum fjölmiðlum að tillagan verði samþykkt enda hafi allir helstu stjórnmálaflokkarnir sem fulltrúa eiga á þingi lýst yfir stuðningi við að kosningum verði flýtt og þær haldnar í sumar. Þar á meðal Verkamannaflokkurinn, Skoski þjóðarflokkurinn og Frjálslyndir demókratar.

Fjallað er um þetta á fréttavef breska dagblaðsins Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert