May boðar til þingkosninga

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fyrir utan Downingstræti 10 í morgun.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fyrir utan Downingstræti 10 í morgun. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að hún ætlaði að boða til þingkosninga í landinu 8. júní í sumar. Boðað var til blaðamannafundar fyrir utan skrifstofu May í Downingstræti 10 í London með skömmum fyrirvara. Fjallað er meðal annars um tilkynningu forsætisráðherrans á fréttavef breska dagblaðsins Guardian.

May sagði í ávarpi sínu að þegar hún hefði tekið við sem forsætisráðherra síðasta sumar hefði þurft að koma á stöðugleika í landinu eftir þjóðaratkvæðið um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Það hefði hún nú gert. Hún hefði að sama skapi unnið að þeirri niðurstöðu þjóðaratkvæðisins að landið skuli ganga úr sambandinu.

May tók við sem forsætisráðherra í kjölfar þjóðaratkvæðisins eftir að forveri hennar David Cameron sagði af sér embætti. Cameron hafði leitt baráttuna fyrir áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. May hefur fyrir vikið aldrei fengið umboð sem forsætisráðherra í kosningum og hefur ítrekað verið skorað á hana að boða til kosninga.

Framhald Brexit háð sigri Íhaldsflokksins

May hefur til þessa hafnað því að boða til kosninga en hún hefur einnig verið hvött til þess í ljósi góðs gengis Íhaldsflokks hennar í skoðanakönnunum. Nýjasta könnunin sýnir flokkinn með 44% fylgi en næstur kemur Verkamannaflokkurinn með 23%. Frjálslyndir demókratar mælast með 12% og Breski sjálfstæðisflokkurinn 10%.

Ljóst er að framhald útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er háð því að Íhaldsflokkurinn sigri í kosningunum. Sigri flokkurinn verða næstu þingkosningar ekki fyrr en 2022 í stað 2020. May verður þá í sterkari stöðu til þess að fylgja úrgöngunni eftir. Þá benda kannanir til þess að flokkurinn muni bæta við sig fjölda nýrra þingmanna.

May getur hins vegar ekki boðað til kosninga upp á sitt eindæmi. Það gátu forsætisráðherrar fyrir 2010 en með nýrri löggjöf sem þá var samþykkt var fimm ára kjörtímabil þingsins fest í sessi. Samþykki 2/3 þingmanna þarf til þess að flýta kosningum. Hins vegar er talið líklegt að nægur stuðningur sé fyrir því í breska þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert