„Þeir drápu marga vini mína“

Ættingjar eins hermannanna sem var drepinn bera líkkistu hans.
Ættingjar eins hermannanna sem var drepinn bera líkkistu hans. AFP

Mikil sorg ríkir í Afganistan eftir árás á herstöð sem talibanar stóðu fyrir þar sem yfir eitt hundrað hermenn létust eða særðust.

Ashraf Ghani, forseti Afganistans, sagði að árásin, sem var gerð skammt frá borginni Mazar-e-Sharif, hafi verið gerð þvert á mannleg gildi eða kenningar islam.

Sumir þeirra sem komust lífs af gáfu í skyn að árásarmennirnir, sem voru klæddir eins og hermenn, hafi fengið aðstoð innan frá.

„Þegar árásarmaður kemur inn á herstöðina, af hverju er hann ekki stöðvaður? Það er ekki bara ein hindrun eða öryggishlið, þau eru sjö eða átta,“ sagði særður hermaður, í frétt BBC.

Afganskir ættingjar fórnarlamba fylgjast með sjúkrabíl flytja lík hermanna.
Afganskir ættingjar fórnarlamba fylgjast með sjúkrabíl flytja lík hermanna. AFP

Mohammad Qurbuan, sem er 19 ára, særðist á hendi og á mjöðm í árásinni. Hann sagði við AFP-fréttastofuna að mörg fórnarlambanna hafi verið skotin af stuttu færi.

„Leiðtoginn sagði þeim að miða á höfuðin. Þeir drápu marga vini mína. Ég stökk út um glugga til að bjarga lífi mínu,“ sagði hann.

Talið er tala látinna gæti farið í 150. Flestir hermannanna sem létust voru ungir að árum og að stíga sín fyrstu skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert