Segja snjallsímann trufla fjölskyldulífið

Það er stundum ágætt að leggja frá sér símann.
Það er stundum ágætt að leggja frá sér símann. AFP

Það hefur mikil og truflandi áhrif á fjölskyldulífið þegar foreldrar eru mikið í snjallsímanum á heimilinu. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar þar sem ungmenni á aldrinum 11-18 ára í Bretlandi voru spurð út í tækjanotkun foreldranna.

Fram kemur á vef BBC, að alls hafi 2.000 ungmenni á þessu aldursbili verið spurð og ríflega þriðjungur þeirra segist hafa beðið foreldra sína um að hætta að vera stanslaust í símanum.

Þá kemur fram, að 14% ungmennanna haldi því fram að foreldarnir séu á netinu í símanum á matmálstíma. Fram kemur að 95% foreldra neiti því, en alls voru 3.000 foreldrar spurðir sérstaklega í annarri könnun. 

Rannsóknin var gerð á vegum Digital Awareness UK í Bretlandi og Headmasters' and Headmistresses' Conference.

Í frétt BBC segir einnig, að 82% ungmenna séu þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að vera í snjalltækjum á matmálstíma. Þá sögðu 22% að snjallsímanotkun kæmi í veg fyrir að fjölskyldan gæti notið þess að eiga saman samverustund. Þá sögðust 36% hafa beðið foreldra sína um að leggja frá sér símtækin.

Af þeim síðastnefndu, þ.e. sem báðu foreldra sína um að leggja frá sér tækin, sögðu 46% að foreldrar þeirra hefðu ekki veitt þeim eftirtekt og 44% sögðust líða illa yfir því að þau væru virt að vettugi. 

Foreldarnir hafa hins vegar aðra sögu að segja. Aðeins 10% þeirra telja að notkun þeirra á snjallsímum sé áhyggjuefni hvað varðar börnin þeirra. En 43% telja sig aftur á móti eyða of miklum tíma á netinu. 

Einnig kemur fram, að 37% foreldra telji sig eyða um fimm til sjö klukkustundum á netinu á dag um helgar og 5% sögðust geta verið hátt í 15 klukkustundir á dag um helgar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert