Hættir sem leiðtogi Þjóðfylkingarinnar

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Marine Le Pen tilkynnti í dag að hún ætlaði að hætta sem leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar en hún komst í aðra umferð forsetakosninganna í Frakklandi í gær. Síðari umferð kosninganna fer fram 7. maí á milli hennar og miðjumannsins Emmanuel Macron.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ekki liggi fyrir hvort ákvörðun Le Pen sé varanleg en haft er eftir henni að með ákvörðun sinni vilji hún fjarlægja sig umræðum um stjórnmálaflokka. Ummælin lét hún falla á franskri sjónvarpsstöð. Le Pen sagði ennfremur að franska þjóðin stæði frammi fyrir mikilvægri ákvörðun.

Le Pen tók við af föður sínum sem leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í janúar 2011. Flokkurinn berst einkum fyrir harðri innflytjendastefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert