Með leyniskyttur í skjóli myrkurs

Lögregla að störfum í New Orleans.
Lögregla að störfum í New Orleans. AFP

Borgaryfirvöld í New Orleans tóku í skjóli myrkurs snemma í morgun niður fyrsta minnismerkið af fjórum um Suðurríkjasambandið, en búist er við að hin þrjú fái einnig að fjúka á næstu dögum.

Mjög hefur verið deilt um minnismerkin að undanförnu en þau þykja af mörgum tákna yfirburði hvítra manna í bandaríska suðrinu.

Verkamenn mættu skömmu eftir klukkan eitt í nótt að staðartíma, eða um klukkan sex í morgun að íslenskum tíma, til að fjarlægja styttu sem reist var árið 1891 til að minnast misheppnaðrar byltingar gegn stjórn sem samanstóð bæði af hvítum mönnum og svörtum.

Verkið var tímasett varlega til að lágmarka mótmæli þeirra sem talað hafa gegn breytingunum, en nokkrir borgarfulltrúar í borginni segjast hafa fengið líflátshótanir vegna þeirra.

Leyniskyttur lögreglu fylgdust með verkamönnunum í nótt og í morgun á meðan þeir luku við verkið.

Færðar í sögulegt samhengi

„Fjarlæging þessara styttna sendir skýr og ótvíræð skilaboð til íbúa New Orleans og þjóðar okkar,“ segir borgarstjórinn Mitch Landrieu í yfirlýsingu.

Borgin mun eins og áður sagði fjarlægja þrjár styttur til viðbótar, tvær þeirra eru til minningar um hershöfðingjana Robert E. Lee og P.G.T. Beauregard og sú þriðja sýnir fyrrverandi forseta ríkjasambandsins, Jefferson Davis.

Verða þær færðar „á stað þar sem hægt er að láta þær í sögulegt samhengi,“ segir borgin í tilkynningu.

Gagnrýnendur breytinganna hafa á móti sagt að stytturnar eigi að fá að standa óáreittar. Þær séu hluti af sögu borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert