Aftökur á færibandi í Arkansas

Jack Harold Jones og Marcel W. Williams voru teknir af …
Jack Harold Jones og Marcel W. Williams voru teknir af lífi í Arkansas í nótt. AFP

Yfirvöld í Arkansas tóku tvo af lífi í nótt enda mikið í mun að ljúka aftökum af áður en lyfin sem notuð eru við aftökur renna út í næstu viku. Er þetta í fyrsta skipti í 17 ár sem tveir fangar eru teknir af lífi á sama tíma í Bandaríkjunum.

Ríkissaksóknari Arkansas, Leslie Rutledge, segir að þeir Jack Jones og Marcel Williams, sem báðir voru dæmdir til dauða á tíunda áratug síðustu aldar, hafi verið teknir af lífi í nótt með banvænni lyfjablöndu eftir að hæstiréttur hafnaði lokaáfrýjun þeirra.

Yfirvöld í Arkansas hafa boðað átta aftökur á ellefu dögum sem yrði nýtt met á þessu sviði en af þeim hafa fjórir fangar fengið gálgafrest.

Jones, 52 ára, var tekinn af lífi eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði beiðni verjenda hans um að farið yrði yfir mál hans að nýju.

Williams, 46 ára, var drepinn nokkrum klukkustundum eftir að áfrýjun hans var synjað. Lögmenn þeirra hafa ítrekað reynt að koma í veg fyrir aftökurnar, meðal annars á þeirri forsendu að Jones biðu ólögmætar þjáningar við aftökuna og Williams á þeirri forsendu að hann væri svo feitur að erfitt yrði að finna nothæfa æð fyrir innspýtingu lyfjablöndunnar.

Ríkisstjóri Arkansas, Asa Hutchinson, hefur sagt að nauðsynlegt sé að drífa aftökurnar af þar sem lyfin sem notuð eru við aftökur í ríkinu séu að renna út á tíma en gildistími þeirra er á enda við lok mánaðar.

Rutledge segir í tilkynningu að fjölskyldur og vinir fórnarlambsins hafi fengið réttlætinu fullnægt.

Aftaka Jones hófst klukkan 19:06 að staðartíma, klukkan 00:06 að íslenskum tíma, og klukkan 19:20 var hann úrskurðaður látinn. Jones var dæmdur til dauða árið 1996 fyrir að hafa nauðgað og kyrkt Mary Phillips og að hafa reynt að drepa 11 ára gamla dóttur hennar.

Jones bað stúlkuna afsökunar í lokaorðum sínum. „Ég vona að þú komist að því einhvern tíma hver ég er í raun og veru og að ég er ekki skrímsli,“ sagði Jones. Hann var rólegur og lýsti því hvernig hann hafi reynt að bæta sig sem manneskju og beindi orðum sínum til Lacey, dóttur Mary Phillips, en hún var viðstödd aftökuna. Phillips var 34 ára þegar Jones drap hana.

Þremur klukkustundum síðar hófst aftaka Williams en hann neitaði að segja nokkuð að lokum. Hann var úrskurðaður látinn klukkan 22:33, klukkan 03:33 í nótt að íslenskum tíma. Til stóð að hann yrði tekinn af lífi klukkustund á eftir Jones en nokkrum mínútum áður en aftakan átti að hefjast var henni frestað að beiðni lögmanna hans. Töldu þeir að ómannúðlega hafi verið staðið að aftökunni fyrr um kvöldið.

Lögmenn Jones höfðu reynt að fá þeirri aftöku frestað vegna hættu á að dauðdaginn yrði of kvalafullur vegna ótta um að Jones væri með ofnæmi fyrir lyfinu sem notað er við aftökuna, midazolam.

Lögmenn Williams töldu aftur á móti að það gæti verið mjög erfitt að finna nothæfa æð þar sem hann vó 180 kg skömmu fyrir andlátið.  

Williams var dæmdur til dauða árið 1997 fyrir að hafa rænt, nauðgað og myrt Stacy Errickson. Hann rændi einnig tveimur öðrum konum og nauðgaði þeim. 

Á fimmtudaginn í síðustu viku var Ledell Lee tekinn af lífi í Arkansas en það var fyrsta aftakan í ríkinu í meira en áratug. Stefnt er að næstu aftöku eftir tvo daga, 27. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert